138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[12:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Með þessu máli, sem er um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, erum við að reyna að losa enn einn af hlekkjum heimilanna, reyna að leysa úr þeim mikla vanda sem hefur steðjað að íslenskum heimilum og íslenskri þjóð eftir bankahrunið og þeirri miklu skuldsetningu sem við eigum við að etja. Þetta er þriðja málið í fjögurra mála pakka sem er til umræðu í dag en öll eiga þau sameiginlegt að reyna að verja búsetu fólks, tryggja að fólk geti búið áfram í húsum sínum og tapi þeim ekki. Við ölum öll þá von í brjósti að þessi pakki muni leysa mjög mörg af vandamálum þeirra sem verst eru settir. Síðan eru auðvitað fleiri mál í farvatninu sem koma væntanlega inn á þingið í september og á líka eftir að taka á því hvernig það hefur áhrif á heildarstöðuna að gengistrygging lána hefur verið dæmd ólögleg.

Það hefur verið fjallað um það hér í dag, og ég ætla aðeins að fara yfir það, að í raun er dapurlegt að líta til baka og átta sig á því hversu réttarstaða lántakenda eða skuldara hefur verið bágborin samanborið við réttarstöðu lánveitenda. Það er dapurlegt að sjá þegar við vinnum að þessum málum í félags- og tryggingamálanefnd að þar er vitnað í að frjálsri greiðsluaðlögun einstaklinga var komið á í kringum eða upp úr árinu 1990 á Norðurlöndunum eftir mikla erfiðleika sem þá voru þar. Það er dapurlegt að við skyldum ekki taka þá löggjöf upp strax og innleiða hana hér á Íslandi vegna þess að þá hefðum við væntanlega staðið mun betur í þeim erfiðleikum sem hér steðja að.

Það er vandmeðfarið þegar gripið er inn í og oft er reynt að grípa inn í hluti sem eru þegar liðnir, samninga sem hafa verið gerðir og þar þarf að gæta jafnræðis. Það þarf líka að gæta þess að ekki sé gengið á þann rétt sem menn hafa og þar hefur auðvitað alltaf verið yfirvofandi sá eignarréttur sem bundinn er í stjórnarskrá. Öll vinnan hefur orðið að miðast við að reyna að finna þá fínu línu að við búum ekki þannig um málin að þau verði endalaus ágreiningsefni fyrir dómstólum næstu áratugina. Það er oft erfitt að sætta sig við þessa fínu línu, að menn þurfi að gæta hagsmuna beggja hópanna, en ég held að með þeirri umfjöllun sem hér hefur átt sér stað í félags- og tryggingamálanefnd hafi menn reynt að feta línuna og gert það býsna vel með aðstoð færustu manna á þessu sviði og dyggri aðstoð réttarfarsnefndar.

Það hefur komið fram að þetta mál mun snerta á milli 1.000 og 1.500 eignir, eða einstaklinga og fjölskyldur sem eiga tvö heimili. Fólk treysti á að geta losað sig við eign eins og það gat árin á undan en sat síðan uppi með það eftir hrunið að geta ekki losað sig við eignina, bæði vegna staðsetningar en ekki síður vegna þess að fasteignamarkaðurinn fraus. Við erum sem sagt að reyna að losa þessa aðila úr fjötrum og leyfa þeim að skila annarri eigninni án þess að í raun sé verið að fella annað niður. Þeir fá að afhenda 100% veðsetta eign þeim sem eiga skuldirnar og komast þá í eðlilegt umhverfi með þá eign sem eftir er, sem væntanlega er heimili þeirra.

Það hefur verið reynt að gera lagaumgjörðina sem skilvirkasta og þægilegasta og tryggja að hún nái utan um þann hóp sem lenti í þessum erfiðleikum í kringum hrunið. Auðvitað hefur ekki verið hægt að færa tímamörkin endalaust aftur í tímann, en við færðum þetta fram. Við miðuðum við 1. janúar 2007 en eftir að hafa skoðað upplýsingar um sölur, m.a. úr fasteignaskrá, um að markaðurinn fraus fyrr úti á landi var þetta fært til 1. janúar 2006. Eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér vakti athygli á var þar að auki sett inn ákvæði um að í sérstökum undantekningartilfellum væri hægt að skoða sölur sem átt hefðu sér stað fyrir þann tíma. Þarna er ekki bara um að ræða að menn hafi átt tvö heimili heldur getur líka verið að fólk hafi veðsett húsin sín á meðan það var að byggja nýbyggingar og þær séu nú fokheldar eða lítt kláraðar en standi fyrir miklum skuldum. Með þessu úrræði er þá möguleiki að losa þær eignir.

Ég vona að framkvæmdin á þessu gangi eftir og gangi vel fyrir sig. Ég hef ekki sömu áhyggjur og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem telur að það sé beinlínis verið að leggja á þá sem þurfa að leita úrræða mikla vinnu. Það kom ítrekað fram í störfum nefndarinnar að þó að í frumvarpinu og nefndarálitinu sé fjallað um hvaða gögn þurfi að liggja fyrir mun umboðsmaður eða umsjónarmaður fara með málið. Hann mun geta aðstoðað og kallað eftir öllum þessum gögnum þannig að fólk verður ekki sent í vinnutíma út um allan bæ til að leita að gögnum. Það mun verða kallað eftir því sem liggur fyrir rafrænt og hægt er að kalla eftir innan stjórnsýslunnar með þeim hætti þannig að það er engin ástæða til þess að breyta þessu í frumvarpinu vegna hugsanlegs ótta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn telji upp þau atriði sem eiga að liggja fyrir þannig að það sé klárt og ekki verði ágreiningur um það.

Ég vil þakka samstarfið í félags- og tryggingamálanefnd. Það er dæmigert fyrir það sem er að gerast í þinginu miklu víðar en menn halda, stjórn og stjórnarandstaða hafa tekið höndum saman um að leysa mál og unnið mjög vandaða, heiðarlega og málefnalega vinnu. Þannig á það auðvitað að vera og þetta er dæmi um mál sem var unnið þannig. Allan tímann var verið að leita að lausnum, draga fram viðfangsefni sem þurfti að leysa og síðan var leyst úr þeim í sátt og samlyndi og með góðum árangri sem ég treysti á að eigi eftir að gagnast mjög mörgum sem eru yfirskuldsettir og eiga á hættu að tapa húsnæði sínu.