138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[13:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Við lifum á áhugaverðum tímum og nýjustu fréttir úr Hæstarétti eru einn flötur á því. Þessi dómur bæði leysir vandamál og gæti hugsanlega búið til vandamál og við því þarf að bregðast. Snúum okkur fyrst að þeim vanda sem hann þó leysir. Það hefur verið vitað um alllangt skeið að þær fjölskyldur sem tekið höfðu bílalán með gengistryggingu sem nú hefur verið dæmd ólögmæt höfðu þungar byrðar af þeim lánum. Margra leiða hafði verið leitað til að taka á því vandamáli sem var ekki bara þungbært fyrir þessar fjölskyldur heldur einnig fyrir hagkerfið allt. Leitað var leiða fyrir atbeina framkvæmdarvaldsins, sem reyndi að ná samningum við eignarleigufyrirtækin, og löggjafinn var kominn langt með að setja lög sem tóku á þessum vanda. Nú hefur Hæstiréttur stigið inn á sviðið og úrskurðað gengistrygginguna ólögmæta og það gerbreytir stöðunni fyrir þá sem eru með þessi lán. Lauslega má áætla að eftirstöðvar þessara lána lækki að jafnaði um meira en helming. Það er auðvitað misjafnt eftir því hvenær lán voru tekin og í hvaða myntum og hvort lántakendur hafa notið einhverra úrræða en meðaltalið er ríflega helmingur. Það eru vitaskuld afar gleðilegar fréttir, ekki bara fyrir þessar fjölskyldur, ég held að lýsa megi því yfir að nánast þjóðin öll hljóti að fagna því að vandi þessara fjölskyldna hefur verið leystur með þessum hætti. Eftir stendur hins vegar að þessi dómur, og reyndar einnig dómar sem fyrirsjáanlega eiga eftir að falla, geta bæði leyst vanda og búið til vanda.

Í hnotskurn má segja að fjármálakerfið sem við komum á laggirnar haustið 2008 hafi verið undir það búið að ekki væri hægt að innheimta lán sem þessi að fullu, í raun var aldrei gert ráð fyrir því. En fjármálakerfið var ekki undir það búið að fyrir utan það að gengistryggingin sem slík væri dæmd ólögmæt væru lögin túlkuð á þann veg að hinir erlendur vextir skyldu standa á þessum lánum. Það högg sem felst í því að afnema gengistrygginguna en á sama tíma ákveða að lánin beri eðlilega innlenda vexti er högg sem gert hafði verið ráð fyrir þegar það var stofnsett. Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn eða horft fram hjá því höggi sem félli á fjármálakerfið ef gengistryggingin yrði felld niður og auk þess ekkert gert til að taka á þeirri staðreynd að þessi lán voru veitt með erlendum vöxtum eins og þau væru í erlendri mynt en nú hefur komið í ljós að þau teljast í krónum.

Nú er það þannig að mönnum er mishlýtt til fjármálakerfisins og kannski gráta það ekki allir að það verði fyrir þungu höggi. Það má vel vera en högg af þeirri stærðargráðu sem gæti orðið ef allt færi á versta veg frá sjónarhóli lánveitenda mun óhjákvæmilega að verulegu leyti lenda á öðrum, þar á meðal á ríkissjóði og þar með skattgreiðendum og notendum opinberrar þjónustu. Við það verður ekki unað. Ekki er hægt að una við það að ákvörðun um það hvernig tekið er á þessum málum leiði til þess að ákveðinn hópur Íslendinga fái vildarkjör á lánum sínum langt umfram það sem aðrir fá með kostnaði sem fellur að umtalsverðu leyti á skattborgara þeirra, beint eða óbeint í gegnum ríkissjóð. Við stöndum frammi fyrir því og reyndar stendur Hæstiréttur einnig frammi fyrir því. Þetta viðfangsefni verður með einum eða öðrum hætti að leysa. Ég hef sagt það opinberlega og ítreka að það er algjörlega óásættanlegt að á þessu viðfangsefni verði tekið með þeim hætti að hluti Íslendinga fái mikil vildarkjör — í raun og veru sambærileg við það sem fólk fékk sem stóð í húsbyggingum á áttunda áratugnum og fékk lán sem brunnu upp í verðbólgu — og að kostnaðurinn af því falli að verulegu leyti á samborgara þeirra. Það er eitt af þeim viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir nú.

Auðvitað stöndum við einnig frammi fyrir öðrum viðfangsefnum. Þegar svona fréttir koma er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvernig gat þetta gerst? Það er eitt af því sem draga þarf fram. Hvernig gat það gerst að lög sem sett voru 2001 voru ekki virt árum saman? Allir horfðu fram hjá því, ekki bara lögmenn bankanna, þótt auðvitað beri þeir mikla ábyrgð, eða stjórnendur bankanna heldur einnig eftirlitsstofnanir og raunar dómskerfið sjálft sem athugasemdalaust leyfði mönnum eða lánafyrirtækjum að innheimta kröfur sem voru byggðar á þeim lánasamningum sem Hæstiréttur hefur nú úrskurðað að feli í sér ólögmæta gengistryggingu.

Við getum líka velt því fyrir okkur hvort lögin sjálf, sem sett voru 2001, hafi verið eðlileg. Þau eru reyndar tiltölulega skýr. Það er ekki hægt að kvarta undan því. En það er óneitanlega mjög umhugsunarvert hvers vegna sú leið var farin sem raun ber vitni, að banna ekki almennt erlend lán en banna eina útgáfu af erlendum lánum sem er þó hvorki hættulegri né óæskilegri en aðrar útgáfur af erlendum lánum, þ.e. erlend lán sem eru sett þannig fram að að forminu til er lánið í íslenskum krónum en í reynd er upphæðin tengd gengi erlendrar myntar. Þetta ákvæði var ekki sett í lögin af einhverjum neytendaverndarsjónarmiðum enda er engin sérstök neytendavernd fólgin í þessu því að almenn erlend lán eru alveg jafnhættuleg og hafa alveg sömu kosti og galla og þessi lán frá sjónarhóli neytenda. Því verður að spyrja hvers vegna það var sett inn í lögin og hvort það eigi að vera í lögum áfram.

Það breytir að vísu mjög litlu um þá stöðu sem nú er uppi hvort þessu verður breytt en þetta er eitt af því sem Alþingi hlýtur að taka til skoðunar fyrr eða síðar. Raunar snýst hæstaréttardómurinn ekki um það hvort lánin hafi verið ósanngjörn eða í eðli sínu hættuleg eða óæskileg eða með einhverjum slíkum annmörkum, það snýst eingöngu um form. Hann snýst um það hvort slíkur munur sé á láni sem er veitt t.d. í jenum eða láni sem veitt er í íslenskum krónum og upphæðin sem greiða á síðan reiknuð út með því að skoða breytingar á gengi jens gagnvart krónunni. Á því er enginn eðlismunur hvorki frá sjónarhóli lánveitenda né lántakenda en á því er sá formmunur sem Hæstiréttur hefur nú úrskurðað að skipti sköpum.

Ég ætla ekki að deila við Hæstarétt um það hvort það hafi verið rétt niðurstaða eða ekki, við hlítum niðurstöðum Hæstaréttar um það. En óneitanlega hefur Hæstiréttur þarna úrskurðað á grundvelli forms en ekki út frá einhverjum sjónarmiðum um sanngirni eða neitt slíkt. Raunar á Hæstiréttur eftir að taka afstöðu til þess en þó má benda á að þótt Hæstiréttur hafi ekki fellt þennan dóm með neinum sanngirnisrökum eru án efa margir, og m.a. sá sem hér stendur, á því að niðurstaðan hafi í sjálfu sér ekkert verið ósanngjörn. Þótt ekki hafi verið komist að þessari niðurstöðu með neinum sanngirnisrökum get ég vel fallist á að það hafi verið ósanngjarnt að skilja þá eftir sem tóku þessi erlendu bílalán eða gengistryggðu bílalán á sínum tíma með alla þá gengishækkun sem á þeim hafði dunið — Hæstiréttur hefur nú tekið hana til baka og því ber að fagna, ég geri það heils hugar.