138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[13:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu tækifæri til að fara nokkrum orðum um þá stöðu sem upp er komin í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána. Um leið og því ber að fagna að komin sé niðurstaða í þennan þátt málsins blasir auðvitað við að enn er mikil óvissa um áhrif dómsins, bæði gagnvart lántakendum sem hafa bætt stöðu sína verulega, lánveitendum sem þetta bitnar á og síðast en ekki síst hefur það efnahagsleg áhrif á samfélagið í heild. Það er auðvitað ótrúlegt að svona geti gerst, að hægt hafi verið að stunda ólöglegar lánveitingar í níu ár án þess að eftirlitskerfið hafi gert athugasemdir eða gripið inn í.

Enn og aftur horfumst við í augu við alvarlegar veilur á eftirlitskerfinu sem átti að fylgjast með fjármálakerfinu hér á landi í aðdraganda hrunsins. Ríkisstjórnin og ráðherranefnd um efnahagsmál hafa ítrekað fjallað um þetta mál á undanförnum vikum, bæði fyrir dóminn og eftir að hann lá fyrir. Ítarleg gögn liggja fyrir um möguleg áhrif dómsins á fjármálafyrirtækin eftir því hver verður endanleg afstaða Hæstaréttar til þeirra álitamála sem enn eru uppi. Ljóst er að dómurinn um ólögmæti er alveg skýr, en meiri óvissa um hvernig fara eigi með umrædd lán í framhaldinu. Í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní hefur verið deilt um hvernig haga eigi endurgreiðslu gengislánanna og um gildi þeirra skilmála sem í samningunum er að finna. Hefur verið kallað eftir úrlausn dómstóla um þau atriði og í því sambandi komið fram hugmyndir um að lögfesta svonefnda flýtimeðferð til að leysa úr ágreiningi um þá skilmála sem eftir standa. Ég vek athygli á því að flýtimeðferð þýðir að allir frestir í málsmeðferðinni styttast. Slík heimild mundi þó að öllum líkindum taka eingöngu til þeirra mála sem enn hafa ekki verið borin undir dómstóla.

Ég vil líka undirstrika að samkomulag um flýtimeðferð skilar skjótari árangri en lögfesting flýtimeðferðar sem mundi þá ekki ná nema til nýrra lána. Nú þegar geta lögmenn aðila samið um styttri frest ef svo ber undir og dómstólar geta forgangsraðað málum. Það var einmitt gert í þeim málum sem Hæstiréttur leiddi til lykta 16. júní síðastliðinn. Aðilar geta því þegar gert samkomulag um að flýta meðferð þeirra gengismála sem þegar eru til meðferðar og bíða aðalmeðferðar héraðsdóms. Í þeim tilvikum gætu málsaðilar því gert samkomulag um að í þeim málum verði leyst úr álitaefnum sem varða skilmála þessara lánasamninga og endurgreiðslur þeirra.

Ég bendi á að með samvinnu aðila máls, lögmanna þeirra og dómara, væri unnt að fá skorið úr þessum réttarágreiningi fyrir héraðsdómi jafnvel þegar í haust. Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir slíkri samvinnu eins og unnt er og vinnur dómsmálaráðuneytið að því að kanna grundvöll slíkrar samvinnu. Þess ber þó að gæta að dómsvaldið er sjálfstætt og aðilar máls hafa forræði þess. Ekki stendur til að ganga á þann rétt. En það er hins vegar afar brýnt að lögmenn og málsaðilar leggist á eitt og komi að þessu verkefni með það að leiðarljósi að fá sem fyrst endanlega niðurstöðu dómstóla.

Að þessu sögðu tel ég rétt og æskilegt að til viðbótar við þetta verði unnið að lögfestingu flýtimeðferðar í þessum málum. Það verður gert í dómsmálaráðuneytinu í júlí og ágúst auk þess sem dómsmálaráðherra vinnur áfram að undirbúningi breytinga um hópmálssókn. Markmiðið er að leggja fram fullbúið frumvarp í byrjun september. Við verðum auðvitað að vona að niðurstaðan, hver sem hún verður, en það er Hæstaréttar að útkljá málið varðandi óvissuna vegna vaxtanna, hafi ekki í för með sér stórkostlegan skaða fyrir efnahagslíf okkar. Það tapa allir á því.

Niðurstaða okkar er sú að ekki sé tilefni til beinna afskipta ríkisstjórnar eða löggjafarvaldsins af málinu og að fyrirliggjandi lög taki á þeim álitamálum sem uppi eru varðandi endurreikning lánanna. Mikilvægt er þó að í því bráðabirgðaástandi sem skapast þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir um vextina að framkvæmdin sé ekki í uppnámi heldur geti hún gengið eðlilega fyrir sig.

Ítarlegt samráð hefur verið haft við þingmenn og formenn stjórnarandstöðuflokkanna um stöðuna og áhrif dómsins allt frá dómsuppkvaðningu. Við áttum síðast fund með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna í morgun og við munum einnig leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins um þetta mál. Að mínu viti er afar mikilvægt að það góða samráð sem við höfum haft haldi áfram. Hér er um svo risavaxið mál að ræða að öll möguleg skref ríkisvaldsins og löggjafans verður að taka á grundvelli víðtækrar samstöðu allra stjórnmálaflokka. Hér verða stjórn og stjórnarandstaða að standa saman um hvert skref.

Stóra álitamálið í þeim efnum er á hvaða forsendum beri að innheimta lánin, fyrst gengistryggingin var dæmd ólögleg. Þar eru uppi tvenns konar sjónarmið sem breyta miklu um endanleg áhrif dómsins. Þar er helst rætt um óbreytta erlenda samningsvexti, eða óverðtryggða vexti Seðlabankans. Á þessum vaxtakjörum er mikill munur og ræður það miklu um þróun efnahagsmála næstu missirin og hve hratt við getum komist upp úr efnahagsþrengingunum. Áhrifin á bankakerfið, hvað það þolir í þessu efni og eins fyrir ríkissjóð, ræðst því af því hver niðurstaðan verður í málinu fyrir Hæstarétti. Það er afar óheppilegt ef það tekur einhverja mánuði að eyða þeirri óvissu. Ekki er ólíklegt að bankarnir sjálfir muni líka reyna að rétta sinn hlut fyrir dómstólunum.

Í þessu máli þarf líka að horfa til heildarhagsmuna þjóðarinnar sem felast í jákvæðri efnahagsþróun og uppbyggingu atvinnulífsins, að það fari ekki í hægagang, sem og að gæta jafnræðis á milli lántakenda með verðtryggðar og gengistryggðar skuldbindingar. Ég hvet til mikillar varfærni í allri umfjöllun og ákvarðanatöku í málinu. Hvert skref verður að taka með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi án þess að gengið sé á sanngjarnan rétt þeirra sem í hlut eiga. Við stjórnmálamenn, ekki síst fulltrúar á löggjafarsamkomunni, berum mikla ábyrgð á að umræðan verði á ábyrgum nótum. Mikilvægt er, virðulegi forseti, að úr þessu máli verði leyst af yfirvegun, að málið hafi sinn framgang í Hæstarétti og lánastofnanir beri sína ábyrgð á að hafa stundað ólögmæt viðskipti með gengistryggð lán með þeim afleiðingum að heimilin þurfa að taka á sig miklar byrðar. En bankarnir verða líka að axla sína ábyrgð á því og vonandi verður niðurstaðan sú að heildarhagsmunum þjóðarinnar verði ekki teflt í tvísýnu.