138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að hér sé alvarlegra mál á ferð en svo að það sé við hæfi að fara með umræður um það í hefðbundinn umkenningaleik eða karp. Auðvitað vaknar sú spurning og hún hefur verið borin upp: Hvernig í ósköpunum gátu þessir hlutir gerst, að svo umfangsmikil lánastarfsemi um langt árabil í einu landi sé svo í lokin dæmd á ólögmætum forsendum? Við hljótum að spyrja okkur: Hvar voru menn, hvar vorum við öll, allt frá árinu 2001 þegar lögin voru sett? Hvar voru og eru þeir 36 þingmenn, ef ég man rétt, sem báru ábyrgð á afgreiðslu málsins með atkvæði sínu? Hvar var Alþingi með eftirlits- og aðhaldshlutverk sitt? Það setti lögin. Hvar var Seðlabankinn? Fjármálaeftirlitið? Hvar voru þau stjórnvöld sem fóru með efnahagsmál? Þetta eru áleitnar spurningar, þótt ljóst sé að höfuðábyrgðin liggur hjá fjármálafyrirtækjunum sjálfum, sömu fyrirtækjum og í gegnum samtök sín lögðust gegn lagasetningunni á sínum tíma og töldu ekki ástæðu til að banna tengingu útlána við erlenda mynt. Þau hafa þá væntanlega sjálf gagnályktað svo að úr því að lögin voru engu að síður sett væri það bannað. Lánveitingarnar hófust og urðu mjög umfangsmiklar og eru stærsti einstaki útlánaflokkurinn í íslenska fjármálakerfinu.

Hið liðna er liðið og við getum síðar tekið tíma í að fara yfir það. Við erum þar sem við erum og stöndum frammi fyrir því að vinna úr þessu máli þótt með ólíkindum sé. Það skiptir í raun öllu máli hvernig vænlegast er að vinna úr þeim aðstæðum sem komnar eru upp. Að sjálfsögðu er auðvelt að gleðjast með þeim sem urðu fyrir þungum búsifjum, hafandi tekið þessi lán, valið það með upplýstri ákvörðun og/eða hlítt misgæfulegri ráðgjöf um að þetta væri skynsamlegt til að kaupa bíl, húsnæði eða hvað það nú var, þeim sem urðu síðan fyrir miklu og þungu áfalli þegar gengi krónunnar hrundi. Staða þessa hóps hefur verið hvað erfiðust af öllum sem miklar skuldir hafa borið á herðunum. Það hefur verið viðurkennt og ýmis úrræði hafa einmitt miðað að því að koma þeim til aðstoðar. Fjármálastofnanirnar sjálfar, svo því sé til haga haldið, hafa almennt boðið um 25–30% niðurfærslu höfuðstóls lána af þessu tagi. Hér er hins vegar á ferðinni miklu drastískari aðgerð sem fólgin er í dómi Hæstaréttar og færir höfuðstólinn aftur til þess sem hann var upphaflega útborgaður í íslenskum krónum. Það er síðan annað og miklu stærra álitamál hvort menn eigi engu að síður að halda þeim erlendu vöxtum sem tengdir voru erlendri gjaldeyrisviðmiðun og fá þar af leiðandi allt önnur og miklu hagstæðari lánakjör á þessum hluta skuldanna í landinu en aðrir geta. Hvernig með lánin verður farið er í raun aðalatriði þessa máls úr því sem komið er. Dómur Hæstaréttar stendur fyrir þann þátt málsins og engin umræða er um annað en að svo verði en úrslitaatriði þessa máls er hvernig sé rétt, sanngjarnt og eðlilegt að lánin séu síðan meðhöndluð.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að allir haldi ró sinni og yfirvegun við þessar aðstæður. Ég vil láta það koma hér skýrt fram að yfirlýsing stjórnvalda um að allar innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum séu tryggðar er í fullu gildi. Þar af leiðandi er engin ástæða til þess að taka út af bankareikningum og allt óðagot eða umrót af því tagi gerir aðeins illt verra. Það er afar mikilvægt að það sé haft í huga. Það er enginn bráðavandi af því tagi á ferðum að það sé ástæða fyrir fólk að hafa stórar áhyggjur, a.m.k. í bili. Lausafjárstaða í fjármálakerfinu er góð og stjórnvöld munu að sjálfsögðu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja fjármálastöðugleika í landinu, verja hagkerfið og þjóðarbúskapinn. Málið er þó af þeirri stærðargráðu að það kallar á að rækilega sé farið yfir þetta.

Mér er eðli málsins samkvæmt ofarlega í huga að sem minnst af því tjóni sem þarna verður fært milli aðila lendi á ríkissjóði. Hann hefur þurft að taka ærið á sig nú þegar. Það nálgast 200 milljarða sem kostaði að endurfjármagna Seðlabankann eftir tæknilegt gjaldþrot hans haustið 2008. Það fer um og yfir 200 milljarða sem það kostar ríkissjóð, sjóðinn okkar allra, að endurfjármagna banka og sparisjóði í formi eiginfjárframlaga, krafna sem breytt er í hlutafé eða stofnfé og víkjandi lána. Hallinn á ríkissjóði á árunum 2008 og 2009 er samtals upp á um 350 milljarða kr. Inni í þeirri tölu er vissulega hluti kostnaðarins við að endurfjármagna Seðlabankann. Því hafa þungir reikningar lagst á ríkissjóð. Og hver er ríkissjóður? Hann er við. Hann er almenningur í landinu í gegnum þá þjónustu sem ríkissjóður á að standa undir og hann er skattgreiðendur framtíðarinnar.

Menn nefndu samningana á milli gömlu og nýju bankanna. Nú gleðjast menn væntanlega yfir því að tveir af þremur bönkum eru að uppistöðu til í eigu erlendra aðila og það eru þar af leiðandi þeir sem taka á sig það tjón sem þessi skellur færir út í eigin fé þeirra banka. Uppgjörsaðferðunum milli bankanna er líka þannig háttað að erlendir kröfuhafar taka stóran hluta af skellinum eins og þeim sem á undan eru gengnir. Það gleður væntanlega þá í þessum sal sem virðast hafa að sérstöku keppikefli að útlendingar tapi sem mest á Íslandi. Aðalatriðið er þó framtíðin og hvernig við vinnum okkur út úr þessu, að það takist á félagslega og efnahagslega sanngjarnan hátt þannig að sem minnst misvægi verði milli þeirra hópa í landinu sem hafa orðið fyrir búsifjum af völdum bankahrunsins.