138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

fundarstjórn.

[14:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er bara algerlega óskiljanlegt á hvaða vegferð hv. síðasti ræðumaður er og um hvað hann er eiginlega að tala. Ég skýrði mjög vel í máli mínu að hægt væri að fara í flýtimeðferð án þess að farið væri í að koma á lagasetningu í einhverjum flýti. Ég skýrði það mjög vel að það mundi meira að segja skila miklu betri árangri að gera það með þeim hætti en að lögfesta mál sem þegar eru í dómskerfinu. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur tekið undir þetta þannig að ég veit ekki á hvaða vegferð maðurinn er og ég frábið mér, virðulegi forseti, málflutning eins og þann sem kom fram hjá hv. þingmann. Fyrir utan það að formenn flokkanna komust að þeirri niðurstöðu í síðustu viku, þegar gert var þinghlé, að ekki yrðu tekin fleiri mál á dagskrá en þá var samið um þannig að það verður auðvitað ekki gert nema að samkomulag sé á milli flokkanna um það. Það er minn skilningur á þessu máli en ég frábið mér svona málflutning (Forseti hringir.) eins og þann sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór. (Gripið fram í.) Ég er vön svona ómerkilegum málflutningi frá hans hendi.