138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hæstaréttardómum um gengistryggð lán.

[14:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þjóðin hefur þörf fyrir að Alþingi tali með skýrum hætti í þessu máli. Það er samstaða um að Alþingi muni ekki grípa inn í þetta mál heldur sé það dómskerfisins að fara með það. En vilji Alþingis þarf að vera skýr. Því er nauðsynlegt að þetta frumvarp sem lagt var fram af hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fái afgreiðslu þannig að þingið geti sýnt hug sinn í því að það vilji hraða þessum málum í gegnum dómskerfið og fá niðurstöðu í þetta alvarlega mál sem sett hefur allt í uppnám. Ég vil aftur vitna í orð hæstv. fjármálaráðherra í eldhúsdagsumræðunum þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Það kemur ekki til greina að Alþingi ljúki hér störfum og fari í sumarleyfi fyrr en vandaður og sómasamlegur frágangur á málefnum heimilanna hefur fengið hér farsæla afgreiðslu.“

Frágangur á málefnum heimilanna er ekki í höfn, virðulegi forseti. Þingið verður að starfa áfram Ég vil beina því til hæstv. forseta að hér verði ekki farið að því skipulagi sem liggur fyrir um þinghlé til 1. september (Forseti hringir.) eftir að þeim málum lýkur sem hér eru á dagskrá, heldur verði þau mál tekin á dagskrá sem þurfa þykir og þingið haldi áfram á meðan við ljúkum þeim málum.