138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hæstaréttardómum um gengistryggð lán.

[14:50]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ef lagabreytingar eru ekki nauðsynlegar nú eru þær það varla í haust en hæstv. ráðherrar hafa talað um það hér að þeir ætli að leggja fram tillögu um þessi mál í haust.

Ég fagna því að hæstv. dómsmálaráðherra er reiðubúin til að vinna í þessum málum, en ég tel alveg augljóst að það sé of seint í rassinn gripið að fara að gera breytingar í haust. Við sem fylgjumst með þessum málum vitum að lögmannsstofurnar eru að fyllast af málum. Yfirlýsingar fjármálastofnananna í hv. viðskiptanefnd benda til þess að dómsmál vegna gengistryggðra lána verði fjölmörg og dómstólarnir eru stútfullir af málum og þeir eru að springa undan málafjölda. Þess vegna þarf flýtimeðferð í þessum málum til að eyða óvissu. Þetta er ekki pólitískt álitamál, þetta er praktískt atriði, einföld lagasetning sem er ætlað að draga úr óvissu í samfélaginu. Ekki hafa verið færð nein efnisleg rök fyrir því (Forseti hringir.) að það eigi ekki að samþykkja þetta frumvarp eða taka það á dagskrá sem hér um ræðir. Það virðist skipta mestu máli hverjir flytja það en ekki hvers efnis það er.

Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að málið komist (Forseti hringir.) á dagskrá á Alþingi í dag og þá á nýjum fundi. Ég hef aldrei sagt að það eigi að fara í gegn umsagnarlaust. Það er ekkert vandamál að kalla (Forseti hringir.) til hv. allsherjarnefnd til að fara yfir málið en það er vel búið. Ég óska (Forseti hringir.) eftir svörum frá hæstv. forseta um það hvort málið komist á dagskrá í dag.