138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hæstaréttardómum um gengistryggð lán.

[14:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að það er allt til vinnandi að eyða þeirri óvissu sem nú er uppi í þjóðfélaginu. Því vil ég beina því til virðulegs forseta að hún beiti sér fyrir því að það mál sem kom inn í morgun verði tekið á dagskrá, um flýtimeðferð fyrir Hæstarétti.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir segir að maður á að anda með nefinu, en það kemur alltaf að þeim tímapunkti að mönnum ofbýður og mér ofbýður það ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að standa í vegi fyrir því, þó að það sé bara hin minnsta von, að hægt sé að flýta þessu máli, standa í vegi fyrir þessu frumvarpi sem aflétt gæti því frosti sem er núna í bönkunum þar sem búið er að frysta allar aðgerðir til handa heimilunum.