138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:08]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hér upp í andsvari vegna orða hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, þegar hann mælti fyrir nefndaráliti sínu. Hann gat þess að þingmenn annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, hefðu lagst gegn og reynt að hefta framgang þessa máls. Það hef ég ekki reynt að gera. Hv. þingmanni er fullkunnugt um ástæður þess að ég ákvað að vera ekki á þessu nefndaráliti, en ég áskil mér rétt til að vera á framhaldsnefndaráliti þegar málið verður kallað inn á milli 2. og 3. umr.

Það er einfaldlega svo að mér þykja það ekki viðunandi vinnubrögð að tekið sé út nefndarálit þar sem fyrir liggur að tvö misvísandi lagaálit varðandi stjórnarskrána liggja fyrir og það er tilkynnt af formanni nefndarinnar að þau liggi fyrir í pósthólfi nefndarmanna á þeim fundi sem taka á út nefndarálitið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að unnið sé með þeim hætti. Þess vegna gat ég þess á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að ég mundi áskilja mér rétt til að skoða þau lagaálit sem liggja fyrir um þetta mál og jafnframt mundi ég óska þess að það kæmi nýtt lögfræðiálit sem væri ekki unnið í landbúnaðarráðuneytinu, óháð álit sem útskýrði það einfaldlega hvort þessi breyting stangast á við stjórnarskrána. Það held ég að sé frumskylda mín sem þingmanns að fá úr því skorið og vera með það vað fullkomlega fyrir neðan mig áður en áfram er haldið.

Það er ekki hægt að líta svo á að með því sé verið að hefta framgang mála og ég mótmæli þeim orðum hv. þingmanns.