138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera stuttlega grein fyrir þeim fyrirvara sem ég setti við nefndarálitið. Ég er á því með fyrirvara. Það er nefnilega rétt sem fram kom í máli hv. þm. Róberts Marshalls að málið bar mjög brátt að í nefndinni. Ég kann ekki að skýra það fyllilega hvers vegna það festist inni í þingflokki Samfylkingarinnar en svo mikið er víst að málið hefur fengið afar takmarkaða umfjöllun í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það var tekið út á síðasta fundi án þess að nefndarmenn hefðu í rauninni formlegar umsagnir frá nokkrum aðila varðandi frumvarpið og án þess að nefndarmenn hefðu séð tvö lögfræðiálit sem munu liggja fyrir varðandi það hvort frumvarpið standist atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Það er rétt að það komi fram samhengisins vegna og vegna orða sem hér hafa fallið að þau lögfræðiálit leit ég ekki augum fyrr en í gærmorgun að þau voru komin í hólfið mitt. Ég var ekki búin að sjá þau, þau voru ekki komin í hólfið þegar nefndarálitið var tekið út úr nefndinni. Mér fannst það þar af leiðandi óðs manns æði að samþykkja fyrirvaralaust það nefndarálit sem hér liggur fyrir vegna þess að mér finnst það sjálfsagt, í ljósi þeirrar kröfu sem maður gerir sjálfrátt og ósjálfrátt til Alþingis um vönduð vinnubrögð, að lagafrumvörp séu ekki afgreidd í gegnum nefndir og fyrir þinginu án þess að fyrir liggi formlegar umsagnir þeirra sem málið varðar og án þess að lögfræðiálit og ágreiningur um það hvort löggjöf standist stjórnarskrá séu til lykta leidd.

Þess vegna hef ég óskað eftir því við formann nefndarinnar, og hann hefur brugðist vel við því, að þessi lögfræðiálit yrðu lögð fram og þau fengju umfjöllun í nefndinni milli 2. og 3. umr. Vegna þess sætti ég mig við það að málið komi hér til 2. umr. í trausti þess að það fái ítarlegri umfjöllun inni í nefndinni þegar þessari umræðu er lokið.

Ég hef líka óskað eftir formlegum umsögnum frá Neytendasamtökunum, frá umboðsmanni neytenda og Samkeppniseftirlitinu, ekki bara að þær liggi fyrir formlega heldur að þær fái umfjöllun í nefndinni áður en málið verður til lykta leitt.

Þessu vildi ég koma á framfæri. Ég hef kynnt mér þessi lögfræðiálit en ég óska eftir því að þau verði rædd nánar. Þau ganga hvort í sína áttina, bæði álitin urðu til í landbúnaðarráðuneytinu. Í öðru álitinu er komist að þeirri niðurstöðu að draga megi í efa að málið standist atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár, það er þó kannski ekki mjög afgerandi niðurstaða. Hitt álitið gengur út á það að svo sé ekki.

Til upprifjunar má geta þess að 75. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Ég hef ekki stórar áhyggjur af því að frumvarpið standist ekki stjórnarskrá, ég mundi satt að segja ekki vera á þessu nefndaráliti ef ég teldi í raun og veru að svo væri. Mér finnst hins vegar óásættanlegt annað en að þær efasemdir sem settar hafa verið fram fái viðhlítandi umfjöllun í nefndinni.