138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu sem við ræðum núna er verið að eyða ákveðinni óvissu sem verið hefur í kringum greiðslumarkskerfið í mjólkuriðnaði. Þess vegna er auðvitað fagnaðarefni að málið sé komið þetta langt á leið þótt maður átti sig á því, eftir að hafa hlustað á orðaskipti stjórnarflokkanna, að ekki er sopið kálið þótt það sé komið langleiðina í ausuna. Ýmislegt getur greinilega hent á langri leið, eins og við þekkjum sem höfum átt ýmis framfaramál í landbúnaði undir Samfylkingunni. Málið er auðvitað þannig vaxið, eins og kemur glögglega fram í nefndaráliti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og ég ætla að leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í það vegna þess að þar finnst mér vera tekið á þeim álitamálum sem eru uppi í þessum efnum.

„Á fundum nefndarinnar á 136. löggjafarþingi kom meðal annars fram að með því frumvarpi er þá lá fyrir væru tekin af öll tvímæli um réttarstöðu þeirra sem framleiddu mjólk bæði innan og utan greiðslumarks. Þannig þyrfti að liggja ljóst fyrir hvort greiðslumarkskerfi búvörulaga væri virkt eða ekki. Brýnt væri að ekki yrði hróflað við núgildandi greiðslumarkskerfi sem hefur reynst vel. Á móti var það sjónarmið nefnt að greiðslumarkskerfi búvörulaga hamlaði samkeppni í mjólkuriðnaði. Það frumvarp er fyrir lægi mundi loka enn frekar fyrir mögulega aðkomu frumkvöðla að mjólkuriðnaði og þannig tryggja að frekara leyti einokunarstöðu stærstu afurðastöðvarinnar. Skilningur nefndarinnar er að með fyrirliggjandi frumvarpi sé verið að tryggja heildarhagsmuni mjólkuriðnaðar og framleiðenda enda hafi aðrar afurðastöðvar aðgang að hrámjólk til vinnslu á eðlilegum kjörum.“

Þetta eru í raun og veru álitamálin sem við höfum verið að takast á um og hafa helst verið í umræðunni þegar þetta frumvarp eða hugmyndin að því hefur verið rædd á fyrri stigum. Þar sem hér er verið að velta fyrir sér hvort þetta muni loka að einhverju leyti fyrir mögulega aðkomu frumkvöðla í mjólkuriðnaði, þá vil ég vekja athygli á því að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að teknir séu frá 10.000 lítrar. Breytingartillaga okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er að talan fari upp í 15.000 lítra til að opna möguleikana fyrir þá sem eru nýir í þessum geira og eru t.d. að hasla sér völl á grundvelli „Beint frá býli“ verkefnisins, svo sem við ísgerð, framleiðslu á alls konar ostum o.s.frv., sem skiptir gífurlega miklu máli.

Við sjálfstæðismenn höfum lýst stuðningi við það að þetta mál nái fram að ganga. Við skiljum vel efni þess og tökum undir efnisatriðin sem liggja því til grundvallar. Sannarlega hafa verið skiptar skoðanir um málið og við vitum auðvitað að komið hafa fram gagnstæð álit um hvort það standist stjórnarskrána á einhvern hátt. Við þekkjum þau álitaefni sem þar eru uppi og auðvitað er það hlutverk okkar þingmanna sem höfum undirritað eið að stjórnarskránni að taka afstöðu til þeirra. Það getur enginn gert það fyrir okkur áður en frumvarpið er samþykkt. Það er þá ekki fyrr en eftir að lögin hafa verið samþykkt að menn geta látið á það reyna fyrir dómstólum. Fram að því er það einfaldlega okkar hlutverk sem þingmanna að meta þetta eins og við höfum vit, vilja og getu til að gera. Það liggur m.a. væntanlega til grundvallar þegar við tökum afstöðu til þessara mála. Ég virði að sjálfsögðu þau sjónarmið sem eru gagnstæð mínum í þessum efnum en ég vildi bara leggja áherslu á þetta og undirstrika það. Það er á okkar ábyrgð við þessar aðstæður að taka afstöðu til málsins.

Þó að það snúi ekki að efni málsins, þá hefur málið verið í dálítið sérkennilegri stöðu, eins og hér hefur komið fram. Það hefur legið í eins konar saltpækli hjá Samfylkingunni upp á síðkastið eða um nokkurra vikna eða mánaða skeið, sennilega síðan í sláturtíðinni, og ekki komist upp úr þeirri tunnu fyrr en nú þegar málið er komið fram með þessum hætti. Það var lögð á það allmikil áhersla af hálfu hæstv. ráðherra og þingmanna úr stjórnarandstöðunni, eftir því sem ég hef skilið, að fá þetta stjórnarfrumvarp afgreitt en það mætti talsverðri andspyrnu stjórnarliða. Og þótt ýmislegt skondið hafi á fjöru manns rekið á langri þingtíð þá man ég eiginlega ekki eftir svona stöðu, þar sem stjórnarandstaðan leggst sérstaklega á árarnar til að fá stjórnarfrumvörpin samþykkt gegn vilja stjórnarliðanna sem hafa haft aðra skoðun á málinu. Þetta er hins vegar aukaatriði og skiptir ekki máli fyrir efni málsins.

Það er aðeins eitt sem ég vildi nefna að lokum sem snertir þetta. Fyrir Alþingi liggur og er raunar nú til meðhöndlunar í hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, frumvarp um breytingu á framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sem snýr að afnámi svokallaðrar verðmiðlunar- og verðtilfærslugjalda. Ég ætla ekki að fara efnislega út í það við þessa umræðu. Það gerði ég að sjálfsögðu þegar málið var til umfjöllunar. Ég er 1. flutningsmaður málsins og nokkrir aðrir þingmenn eru meðflutningsmenn að því máli. Það hefur fengið umsagnir víða að, bæði frá hlið neytenda og framleiðenda. Allar eru þær umsagnir jákvæðar. Samkeppniseftirlitið telur að vísu að æskilegt væri að ganga lengra en leggst ekki gegn efni frumvarpsins, eftir því sem ég les út úr umsögn stofnunarinnar. Ég mundi því vilja nota tækifærið og hvetja til þess, að þegar málið verður tekið til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis í haust, sem ég geri ráð fyrir að verði í september, þá verði jafnframt hugað að því að taka hitt málið með í einni kippu til að fá ákveðna samfellu í þær breytingar sem nauðsynlegar eru í starfsumhverfi mjólkurframleiðslu og landbúnaðarins að þessu leyti.