138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti um mál sem lýtur að skattalegri meðferð afskrifta bæði fyrirtækja og einstaklinga. Þetta mál er hér til 2. umr. en var til 1. umr. fyrir nokkru síðan og hlaut þá nokkra umfjöllun. Það hefur síðan verið til meðhöndlunar í hv. efnahags- og skattanefnd og við höfum fengið á okkar fund bæði fulltrúa ráðuneytis og skattstjóra og endurskoðenda, Samtaka atvinnulífsins og fleiri og fengið ýmis ágæt sjónarmið um málið. Þetta er eitt þeirra mála sem skiptar skoðanir eru um, held ég að mér sé óhætt að segja, og ýmsir sem hneigjast að því, eins og einn hv. þingmaður nefndarinnar orðaði það, að haga þessum málum með einfaldari hætti þannig að afskriftir sem ekki fela í sér gjafagjörninga til einstaklinga séu einfaldlega undanþegnar sköttum og að afskriftir fyrirtækja þegar rekstrarlegt tap er fullnýtt séu ekki skattskyldar heldur, eins og fordæmi eru fyrir í Danmörku.

Hins vegar eru fjölmörg önnur sjónarmið í þessu og ég held að það mál sem hér er til afgreiðslu miði fyrst og fremst að því að sætta sjónarmið þannig að sem víðtækust samstaða geti orðið um þetta. Þó að sá sem hér stendur gæti út af fyrir sig tekið undir ýmsar einfaldari leiðir þá er það niðurstaða nefndarinnar að flytja þessa tillögu hér við 2. umr. Frumvarpið sjálft er með nokkrum ágætum breytingum og þá ekki síst vegna þess að það gerir ekkert annað en að auka rétt skattgreiðenda frá því sem hann nú er og í engu er þessum lögum ætlað að skerða nokkurn þann rétt sem skattþegnar hafa í núgildandi lagaumhverfi og alls ekki þær heimildir sem opnaðar voru í 3. tölulið 28. gr. tekjuskattslaganna á síðasta ári í tengslum við greiðsluvandaúrræðin sem hér hafa verið sett á laggirnar.

Þeir sem fá afskrifað vegna þess að þeir eru með neikvæða eiginfjárstöðu verða ekki skattlagðir og hafa tryggar leiðir til þess í 28. gr., m.a. ef þeir fara í nauðasamninga, greiðsluaðlögunarferli eða sýna með öðrum sannanlegum hætti fram á að ekki hafi orðið hrein eignamyndun hjá þeim við afskriftirnar heldur hafi einvörðungu verið um að ræða afskriftir vegna þess að ekki voru til eignir fyrir þeim skuldum sem á þeim hvíldu. Allt það fólk er kirfilega undanþegið skattlagningu sem og þeir sem fara í almenn tilboð um margvíslegar skuldaleiðréttingar svo sem skilmálabreytingar, höfuðstólsleiðréttingar og margt af því sem í boði er. Þessu frumvarpi er einvörðungu ætlað að koma til móts við það sem núgildandi ákvæði ná ekki til og opna viðbótarheimildir til þess að veita skattafslátt fyrir einstaklinga og fyrirtæki að tiltekinni upphæð.

Þær breytingar sem nefndin leggur til snúa fyrst og fremst að því sem lýtur að einstaklingum og eru helstar þær að ekki sé einungis um að ræða afskriftir veðskulda heldur líka bílasamninga, því að þar eru auðvitað skuldir sem hafa töluvert verið skrifaðar niður. Í þeim efnum hefði nefndin jafnvel viljað ganga lengra en fann illa skilgreiningu til að takmarka þau lán sem málið næði til. Sömuleiðis hækkar nefndin fjárhæðarmörk nokkuð til að koma til móts við athugasemdir sem voru uppi um þau, bæði um það að tvöfalda ætti þau og eins um það að þau ættu engin að vera, en nefndin taldi hæfilegt að hækka þau um helming.

Síðan er brugðist við athugasemdum um að eftir tveggja ára biðtíma megi ekki vera um að ræða matskennda ákvörðun stofnunar, eins og ríkisskattstjóra, hvort fella eigi niður það sem undir þá þætti fellur í lögunum. Bregst nefndin við því með því að leggja reglugerðarskyldu á herðar fjármálaráðherra og að ríkisskattstjóri skuli á grundvelli þeirrar reglugerðar fella niður í þeim tilfellum sem undir hana heyra. Þá er tryggt að formlegar skriflegar reglur verða sem allir hafa aðgang að um það með hvaða hætti það skuli gert og tel ég að með þeim breytingum sé frumvarpið orðið enn betri ívilnun fyrir skattgreiðendur en það upphaflega var, þó að eflaust séu sjónarmið uppi, sem taka mætti undir, að lengra mætti ganga í þeim efnum.