138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[16:33]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í þessu frumvarpi eru fólgin mikilvæg úrræði sem miða að því að einstaklingar og fjölskyldur í greiðsluvanda geti haldið heimilum sínum og lendi ekki í gjaldþroti. Skuldavandi heimilanna fer því miður enn vaxandi vegna langvinnra afleiðinga efnahagshrunsins. Að hluta til er þetta frumvarp viðbrögð við þeim aðstæðum en er jafnframt ætlað að standa áfram sem úrræði fyrir þau sem lenda í alvarlegum greiðsluvanda í framtíðinni.

Með þessum lögum er þrautaganga skuldugs fólks ekki úr sögunni, því fer fjarri, en markmiðið er að koma erfiðum málum í lausnamiðaðan farveg. Þau úrræði sem um ræðir í dag ganga út á að ná barninu upp úr brunninum en markmið okkar allra til frambúðar hlýtur hins vegar að vera að búa til lánaumhverfi sem byrgir brunninn áður en slysið verður. Skrefin sem hér eru tekin í dag eru sannarlega mjög til bóta og þeim ber að fagna.