138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[16:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að greiða atkvæði um mikilvæg úrræði til handa fólki sem er í miklum greiðsluvanda. Félags- og tryggingamálanefnd hefur unnið vel í þessum málum, breytingarnar sem hafa verið gerðar á þeim frumvörpum sem komið hafa fram eru mjög til bóta og þessi úrræði eru því orðin ágætlega nothæf til að ná markmiðum laganna. Hins vegar er alveg ljóst að menn eiga eftir að koma með úrræði til að hindra það að fleiri einstaklingar þurfi að fara inn í þessi úrræði. Það hlýtur að vera markmið okkar allra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til ákveðna leið í því augnamiði, þ.e. að hópur þingmanna úr öllum flokkum fari yfir það hvort hægt sé að fara í almennar aðgerðir og hvernig það verði þá best gert. Ég vonast til að það góða samráð sem var í félags- og tryggingamálanefnd í þessu máli sannfæri alla hér um það að hægt sé að fara þessa leið. Það er hægt að gera það og okkur ber að gera það í þessum mikilvæga málaflokki sem er skuldavandi heimilanna.