138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[16:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í því ágæta frumvarpi sem við erum að greiða atkvæði um er gert ráð fyrir að menn skili inn umsókn um greiðsluaðlögun og gert er ráð fyrir að menn skili alls konar gögnum um greiðsluaðlögunina. Skýringarnar sem ég fékk voru þær að fólk þyrfti að hafa sæmilega mikið fyrir þessu. Þau gögn sem menn eiga að skila eru til í opinberum skrám. Ég legg til að þetta verði einfaldað það mikið að venjulegt fólk þurfi ekki að skila nema nafni og kennitölu og ef það er eitthvað afbrigðilegt, eignir eða eitthvað slíkt, gefi fólk upplýsingar um það. Allt hitt er til í opinberum skrám og umboðsmaður skuldara getur fundið það allt saman miklu hraðar og það veldur þá ekki vinnu hjá viðkomandi stofnunum og sérstaklega ekki hjá skuldara sem hefur nóg annað að gera en að hlaupa um allan bæ. Ég segi já.