138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[16:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu einfaldlega vegna þess að mér finnst þetta vera algert aukaatriði. Við ræddum þetta töluvert í félags- og tryggingamálanefnd og vorum öll sammála um að einfalda þyrfti ferlana eins og hægt væri en það væri í sjálfu sér mjög eðlilegt að telja upp þau skjöl og þau gögn sem þyrfti að leggja fram. Við höfðum fullvissu fyrir því að umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður hefðu aðgang að þessum gögnum og gætu kallað eftir þeim og það væri alls ekki þannig að fólk væri sent út um allan bæ að leita þeirra. Ég kannast ekki við það að menn hafi talað um að það væri gott á skuldarana að þurfa að hafa fyrir þessu heldur þvert á móti. Aftur á móti ræddu menn að það væri mikilvægt skuldarinn væri ekki settur til hliðar eins og honum kæmi þetta ekkert við, þ.e. að hann hefði eitthvað um málið að segja og þyrfti að kynna sér hvaða gögn væru tekin saman. Þannig er það almennt þegar leitað er upplýsinga að það þarf upplýst samþykki fyrir þeim upplýsingum sem kallaðar eru saman. Þess vegna tel ég þetta óþarfa breytingu og leggst gegn henni.