138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[16:51]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ljóst að við þær aðstæður sem nú eru uppi er brýn nauðsyn að koma aðstoð við skuldara í eins markvissan farveg og kostur er. Nýtt embætti umboðsmanns skuldara byggir á góðri arfleifð Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna en er ætlað mun umfangsmeira hlutverk. Ef alhæfa á um lagabreytingar dagsins ganga þær út á að færa úrlausn erfiðra skuldamála í ríkara mæli í farveg samninga og samstarfs, beina úrlausnum eins og kostur er úr dómstólafarvegi og þess í stað freista þess að ná lausnum við samningaborð. Þetta eru erfið mál og mikið starf mun bíða hins nýja embættis umboðsmanns skuldara sem ég vil nota tækifærið til, fyrir hönd félags- og tryggingamálanefndar allrar, að óska alls góðs á krefjandi en vonandi gefandi verkum.