138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[13:34]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Benedikt Gröndal, fyrrverandi forsætisráðherra, lést á hjúkrunarheimili í Reykjavík 20. júlí sl. eftir langvarandi veikindi. Hann var 86 ára að aldri.

Benedikt Gröndal var fæddur á bænum Hvilft í Önundarfirði 7. júlí 1924. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Gröndal, rithöfundur og veitingamaður, síðar yfirkennari í Reykjavík, og Mikkelína María Sveinsdóttir húsfreyja.

Benedikt lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og þrem árum síðar BA-prófi með sögu sem aðalgrein við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum. Framhaldsnám stundaði hann sumarið 1947 í Oxford á Englandi.

Benedikt Gröndal hóf þegar á skólaárum blaðamennsku og var íþróttafréttamaður og síðar blaðamaður á Alþýðublaðinu öðru hverju þar til hann fór utan til náms. Heimkominn varð hann svo fréttastjóri blaðsins uns hann varð ritstjóri Samvinnunnar árið 1951, en því starfi gegndi hann um átta ára skeið, og var jafnframt síðari árin forstöðumaður fræðsludeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Hann varð svo árið 1959 ritstjóri Alþýðublaðsins og stjórnaði því blaði þangað til hann 10 árum síðar, 1969, var skipaður forstöðumaður Fræðslumyndasafns ríkisins.

Ungur að árum skipaði Benedikt sér í raðir jafnaðarmanna og fór fyrst í þingframboð 25 ára gamall í Borgarfirði, árið 1949, á móti gömlum héraðshöfðingja. Hann náði ekki kjöri þá og ekki heldur fjórum árum síðar, en í kosningunum 1956, þegar bandalag var milli Alþýðuflokks og Framsóknarflokks, náði Benedikt þingsæti sem landskjörinn alþingismaður. Hann sat fram á sumar 1959 en varð á ný þingmaður um haustið fyrir hið nýja Vesturlandskjördæmi og síðar landskjörinn úr því kjördæmi fram til 1978 þegar hann bauð sig fram og var kosinn í Reykjavík.

Hann var endurkjörinn þingmaður Reykvíkinga 1979, en það urðu síðustu þingkosningarnar sem hann tók þátt í því að hann afsalaði sér þingmennsku er hann var skipaður sendiherra Íslands í Svíþjóð 1. september 1982. Hann hafði þá setið á 28 þingum

Síðar gegndi hann sendiherrastörfum gagnvart Austurlöndum og loks fór hann fyrir fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York fram til ársins 1991.

Snemma varð ljóst að vegur Benedikts Gröndals yrði mikill í Alþýðuflokknum. Hann var kjörinn í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir Alþýðuflokkinn 1950 og sat eitt kjörtímabil. Á miklum átakafundi flokksins 1952 var hann kjörinn varaformaður og sat þá í tvö ár. Hann var á ný kjörinn varaformaður 1965 og loks formaður flokksins eftir þingkosningarnar 1974 og gegndi því embætti í sex ár.

Eftir kosningasigur Alþýðuflokksins 1978 varð Benedikt utanríkisráðherra, og þegar síðara ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar fór frá um miðjan október 1979 skipuðust mál þannig að Benedikt varð forsætisráðherra í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sem sat fram í febrúar 1980. Eftir að hann lét af ráðherrastörfum og vék sem formaður í flokki sínum dró hann sig smám saman í hlé. Hann hvarf af Alþingi tveimur árum síðar, og er embættisstörfum hans í utanríkisþjónustunni lauk lét Benedikt ekki til sín taka á opinberum vettvangi.

Blaðamennska og fræðslustarfsemi voru meginviðfangsefni Benedikts Gröndals samhliða stjórnmálunum. Eftir hann liggja nokkrar bækur, einkum um alþjóðamál. Hann varð vinsæll útvarpsmaður og lét málefni Ríkisútvarpsins mjög til sín taka, sat í útvarpsráði í hálfan annan áratug og var formaður þess lengstum, m.a. á þeim tíma er innlendur sjónvarpsrekstur hófst. Benedikt sat í mörgum opinberum nefndum sem ekki verða taldar hér og tók mikinn þátt í alþjóðastarfi alþingismanna.

Benedikt var mikill áhugamaður um störf og starfshætti Alþingis. Hann vann að endurskoðun þingskapa frá 1966 og flutti frumvörp um þau efni. Einnig flutti hann í útvarpi erindi um störf þingsins og þingmanna sem síðar voru gefin út á bók, Alþingi að tjaldabaki. Jafnframt var hann lengi varaforseti í neðri deild.

Benedikt Gröndal var heilsteyptur jafnaðarmaður og samvinnumaður. Hann var hlédrægur að eðlisfari og hæglátur, en hreinskiptinn og heiðarlegur að dómi þeirra sem þekktu hann og unnu með honum í stjórnmálum.

Hann var sanngjarn í málflutningi og kaus jafnan sátt frekar en átök. Á löngum stjórnmálaferli kom hann mörgum góðum málum fram. Menntun hans og áhugasvið gerðu hann að víðsýnum stjórnmálamanni. Umfram allt var hann lýðræðissinni og vann að framgangi lýðræðis og lýðræðislegra stjórnarhátta hvar og hvenær sem færi gafst.

Ég bið þingheim að minnast Benedikts Gröndals með því að rísa út sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]