138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við erum hér til að ræða störf og stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Ekki er vanþörf á nú þegar við komum saman að nýju því að hvert sem litið er blasir við stefnuleysi og ákvörðunarfælni. Breytingar á ríkisstjórninni eru ekkert nema sjónarspil sem ekkert gildi hefur. Þjóðin er ekki að kalla eftir nýjum andlitum, hún er að kalla eftir nýrri stefnu og, síðast en ekki síst, þjóðin er að kalla eftir aðgerðum.

Það vekur þó athygli að sá ráðherra sem vinsælastur var skuli víkja en þeir sem valdið hafa forsætisráðherra mestum vandræðum sitja áfram eða koma inn í ríkisstjórnina. (Utanrrh.: Ertu að tala um mig?) Hin raunverulega ástæða þessa sjónarspils er að á stjórnarheimilinu er hver höndin upp á móti annarri. Nú á að gera úrslitatilraun til að þétta raðirnar um það sem ekkert er. Það er bersýnilegt að þessi ríkisstjórn snýst um ekkert nema völdin. (Gripið fram í: Góðan daginn.)

Aðilar vinnumarkaðarins hafa fyrir löngu fengið nóg og þingmenn stjórnarflokkanna mótmæla stefnu stjórnarinnar síendurtekið. Í nýrri hagvaxtarspá Seðlabankans er gert ráð fyrir minni hagvexti en áður sökum þess að hér er fylgt aðgerðaleysisstefnu. En hæstv. fjármálaráðherra lætur sér ekki segjast og segir að landið sé að rísa. (Gripið fram í: Rétt.) Sem jarðfræðingur ætti hann að vita að það kann að boða mikil ótíðindi. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.)

Ef við veltum því fyrir okkur í alvöru hvað hefur gerst frá því í hruninu er það svo að þrátt fyrir aðgerðaleysið er það rétt sem hæstv. forsætisráðherra tók hér fram að svörtustu spár um samdrátt og atvinnuleysi hafa ekki gengið eftir, og sem betur fer. Þau örfáu jákvæðu teikn sem við höfum eru annars vegar vegna hagstæðra ytri skilyrða og hins vegar vegna þróunar sem hlaut að gerast og byggir á efnahagsáætlun fyrri ríkisstjórnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Staðan er sem sagt betri en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir, hún er ívið betri en við áttum von á — og það er þrátt fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. (Utanrrh.: Heldur en þú spáðir.)

Verðbólgan er til dæmis á niðurleið. Hver er ástæða þess? Jú, gjaldmiðillinn féll, þá kemur verðbólguskot, síðan kólnun. Innlend eftirspurn skreppur saman, gengið nær stöðugleika, það kemst jafnvægi á gengi krónunnar eftir að hún hrynur og í kjölfarið hjaðnar verðbólgan. Þetta er fyrirséð, þetta er beinlínis skrifað inn í þá áætlun sem samin var haustið 2008.

Varðandi hagvöxtinn og samdráttinn, jú, það er rétt, samdráttur í hagkerfinu hefur verið minni en spáð var. Þar hafa útflutningsgreinarnar og ferðaþjónustan fyrst og fremst notið góðs af lágu gengi. Lágt gengi krónunnar og sveigjanleiki hennar hjálpar okkur, um það verður ekki deilt, og sem betur fer hefur eftirspurn hjá viðskiptaþjóðum okkar verið ágæt og afurðaverð hátt, bæði fyrir ál og fiskafurðir. Þá hefur samkeppnishæfni ýmissa fyrirtækja, t.d. í hugverkaiðnaðinum, aukist þótt innanlandsmarkaðurinn sé enn í algjörri ládeyðu. Ytri skilyrði hafa sem sagt verið okkur hagfelld á ýmsan hátt og það dugar ríkisstjórninni skammt að skreyta sig með slíku. Aðgerðir hennar hafa nefnilega haft þveröfug áhrif. (Gripið fram í.) Besta dæmið er stórfelldar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Slíkar aðgerðir hleypa ekki lífi í hagkerfið. Við munum ekki einu sinni deila um það þegar það ber á góma hér í haust. Skattahækkanir örva ekki vöxt hagkerfisins. Þess vegna er algjört glapræði af ríkisstjórninni að ætla að setja þær á dagskrá enn á ný þegar við komum saman í október. Það er algjörlega fráleitt.

Til að loka fjárlagagatinu þarf hagvöxt og hann verður ekki til með fjölgun opinberra starfa, hann verður ekki til með því að setja á laggirnar nýjar stofnanir sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar þreytast ekki á að tyggja ofan í okkur að þeir hafi komið á fót, eins og t.d. umboðsmann skuldara. Nei, hagvöxtur verður til með því að sjá fyrirtækjunum í landinu fyrir almennt traustum og öflugum rekstrarskilyrðum. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa heilbrigð skilyrði til atvinnuuppbyggingar. Mjög mikilvægur liður í því er — og það á sérstaklega við um núverandi aðstæður — að lækka vexti enn frekar og setja í algjöran forgang að afnema gjaldeyrishöftin. Yfirlýsingar eins og þær sem bárust í dag um að á næstunni skuli miðað að því að taka fyrstu skrefin í afnámi haftanna duga engan veginn. Það þarf að setja þetta mál á dagskrá miklu skýrar og ákveðið.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert fleira sem hefur valdið skaða? Jú, hún setti fyrningu aflaheimilda á dagskrá sem algjört forgangsmál. Sem betur fer hefur það verið tekið af dagskrá og endanlega skjalfest af hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í dag. Hugmyndinni um fyrningu hefur verið pakkað niður og það er mjög vel.

Það er auðvitað nauðsynlegt, við vitum það öll, að auka aðhaldið í ríkisrekstrinum til að loka fjárlagagatinu. Þar þarf að forgangsraða og Sjálfstæðisflokkurinn mun á komandi þingi leggja höfuðáherslu á það að menntakerfinu verði hlíft við frekari niðurskurði en orðið er. Ósanngjarn, óeðlilegur frekari niðurskurður í menntakerfinu mun skapa meira atvinnuleysi sem leggst á ríkissjóð.

Það mætti tína til fleiri skaðlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ekki hjálpaði afnám verðtryggingar persónuafsláttarins fjölskyldunum í landinu eða hækkun tryggingagjalds fyrirtækjunum. Það gjald er ekkert annað en skattur á störf. Og ekki hjálpaði hirðuleysi ríkisstjórnarinnar um þá óvissu sem ríkti vegna gengistryggðra lána. Ekki skorti lögfræðiálitin þó að hæstv. forsætisráðherra hafi svo sem ekki verið á póstlistanum þegar þau gengu á milli manna.

Það ástand sem ríkisstjórnin hefur skapað með hirðuleysi og yfirsjón vegna gengistryggðu lánanna er stóralvarlegt. Það hefur skapað óvissu fyrir heimilin og mikla óvissu fyrir fyrirtækin. Óvissan um afdrif málsins fyrir ríkissjóð er líka mjög alvarleg. Þetta eru allt heimatilbúin vandamál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Við getum haldið áfram. Ekki hjálpuðu fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að leggja á íslenskan almenning Icesave-klyfjarnar okkur í þessa aðeins betri stöðu en við áttum von á. Í því máli er ríkisstjórnin ber að mistökum sem ber að rannsaka. (Gripið fram í: Ekki hjálpar það … ríkisstjórnarinnar.)

Getuleysi ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming. Skoðum orkuöflun og -nýtingu. Henni hefur tekist með algjöru klúðri að fæla erlenda aðila frá því að koma hingað og fjárfesta. Þetta er til mikils skaða. Ég segi einfaldlega: Ef ríkisstjórnin er andvíg áformum um uppbyggingu í orkufrekum iðnaði á Suðurnesjunum á hún bara að segja það hreint út eins og á t.d. við í tilviki Norðlingaölduveitu þar sem hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra hafa sagt það hreint út að þeir eru á móti þeirri virkjun, sem er í raun og veru ekki virkjun heldur veita. Þar er ríkisstjórnin á móti hagkvæmasta og skynsamlegasta orkunýtingarkostinum sem er í boði. Þá veit fólk það bara, þetta er afturhaldsstjórn, það er það sem við höfum, enda eru allir nema einn í ríkisstjórninni úr gamla Alþýðubandalaginu.

Einu aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru þær að setja sífellt á laggirnar nýjar stofnanir eða nefndir sem á endanum snúast ekki um annað en hæfi eða óhæfi einstakra nefndarmanna. Þetta á alveg sérstaklega við um það sem ég var að nefna, orkumálin.

Hvað á að bjóða lengi upp á þetta, hæstv. forsætisráðherra? (Gripið fram í.) Hvenær skilar nefndin sem sett var á laggirnar til að skoða hæfi nefndarmanna í nefnd sem átti að skoða störf nefndar um erlenda fjárfestingu? Eru þetta ekki örugglega allar nefndirnar sem skipaðar voru og komið á fót til að skoða það mál? Ég held að hún sé ekki búin að skila, þessi fyrstnefnda.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði í vikunni að það væri ekki mál stjórnvalda hvað gerðist í stóriðju á Suðurnesjunum, en hún vildi halda fund til að spyrja alla hlutaðeigendur hvað ætti að gera í málinu. Nú vil ég spyrja: Er til of mikils mælst af iðnaðarráðherra, samflokksmanni þess manns sem fór á Suðurnesin og tók þar skóflustunguna að nýju álveri, að hún taki einfaldlega afstöðu til málsins, lýsi stuðningi við verkefnið, lofi að ryðja öllum hindrunum úr vegi — nú, eða lýsi sig andsnúna því? (Iðnrh.: Ég var …) Það gengur auðvitað ekki fyrir Samfylkinguna í orkumálum trekk í trekk að taka einhverja hlutleysisafstöðu svipað og við þekkjum úr Hafnarfirði þegar stækka átti álverið þar. Þá tók Samfylkingin þann valkostinn sem minnst áhætta var í og sagði: Við höfum ekki skoðun lengur, við höfum stigið frá málinu, nú er það í ykkar höndum. (Gripið fram í.)

Við þurfum ríkisstjórn sem hefur einhverja stefnu, við þurfum ráðherra sem vilja eitthvað en er ekki sama um það hvernig málunum vindur fram. (Fjmrh.: Hvað leggið þið til?)

Frú forseti. Stöðugleikasáttmálinn er sprunginn (Gripið fram í.) og komandi kjarasamningar stefna í einn allsherjarhnút. Þegar horfa þarf fram á við einblínir ríkisstjórnin aftur til fortíðar. Við núverandi aðstæður þarf að hlúa að atvinnulífinu og gefa von, tækifærin eru til staðar. Ríkisstjórnin verður að gera sér grein fyrir því að virðisaukinn verður til í hinu almenna hagkerfi. Þar verða tekjurnar til sem velferðin er byggð á. (Forseti hringir.) Á örfáum vikum er hægt að gjörbreyta horfum í atvinnumálum, ekki bara á Suðurnesjunum þar sem allan stuðning vantar frá ríkisstjórninni, heldur um allt land.

Ég óska nýjum ráðherrum velfarnaðar í þeirra nýju störfum. Ábyrgð þeirra er mikil. Hafið í huga, ágætu samstarfsmenn, virðulegu ráðherrar, að fólkið í landinu var ekki að bíða eftir nýjum andlitum, það er að bíða eftir nýrri stefnu. Það er að bíða eftir aðgerðum. (Forseti hringir.) Aðgerða er þörf.