138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ágæti þingheimur. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins hlý orð og góðar óskir í garð ríkisstjórnarinnar á þessum tímamótum. Það var einhvern tíma kveðið um hyldjúpan næturhimin sem væri helltur fullur af myrkri. Ég segi kannski ekki að það eigi við hér þegar maður er búinn að sitja undir messu formanns Sjálfstæðisflokksins en einhvern veginn gat ég ekki varist þeirri hugsun að hann kæmi ekki mjög vel undan sumri. Úr því að talað er um landris er vissulega rétt að það getur vitað á vonda hluti ef það er fyrirboði eldgosa en í almennu samhengi — það ættu sjálfstæðismenn að hafa í huga — er landris betra en landsig.

Það var auðvitað mikið landsig á Íslandi þegar hinn þungi jökull lagðist yfir landið á ísöld sem leiddi til þess að þegar ísana leysti vegna seigju jarðskorpunnar var láglendið um 100 metrum lægra miðað við sjávarmál en áður var. Það hafði þær afleiðingar að allt Suðurlandsundirlendið var á kafi í sjó og fjöllin voru eyjar. Má ég þá frekar biðja um landris en svoleiðis landsig.

Þær breytingar á ríkisstjórn sem voru gerðar í dag fela fyrst og fremst í sér skýr og sterk skilaboð um að þessi ríkisstjórn er ekkert á förum. Hún er að endurskipuleggja sig og taka mið af þeim verkefnum sem fram undan eru, þar á meðal og ekki síst að ráðast í djarfar og metnaðarfullar breytingar á Stjórnarráðinu. Nú er verið að sameina ráðuneyti og fækka ráðherrum sem er liður í því að hagræða niður eftir öllu kerfinu, færa saman stofnanir og verkefni, styrkja einingar og taka á þeim veikleikum í stjórnsýslunni sem m.a. rannsóknarskýrslan dregur mjög skýrt fram.

Sú var tíðin að menn fóru þannig að ráði sínu að þeir skiptu upp jafnvel litlum ráðuneytum þegar vantaði stóla undir menn, en það gerir þessi ríkisstjórn ekki heldur tekst þvert á móti af djörfung á við breytingar sem eru sjálfsagðar við okkar erfiðu aðstæður. (Gripið fram í: Hvaða fjarstæða …?)

Ég vil við þessi tímamót, frú forseti, færa alveg sérstakar þakkir því góða fólki sem tók að sér erfið verkefni, um það beðið með stuttum fyrirvara í byrjun febrúar 2009, þeim fráfarandi efnahags- og viðskiptaráðherra og fráfarandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, Gylfa Magnússyni og Rögnu Árnadóttur. Með því lögðu þau af mörkum þjónustu við land og þjóð, þau hlýddu kallinu. Þau hafa unnið vel og faglega og ég treysti því að hver einasti alþingismaður sé mér sammála um það og taki undir að þetta fólk á þakkir skildar fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Gangi þeim vel á nýjum vegum.

Ég vil líka færa öðrum fráfarandi ráðherrum sem nú hverfa úr ríkisstjórn og halda sætum sínum hér þakkir fyrir þeirra störf, þar á meðal og ekki síst auðvitað Álfheiði Ingadóttur sem með afar stuttum fyrirvara tók að sér erfið verkefni heilbrigðisráðuneytisins og hefur leyst þau af hendi með heiðri og sóma.

Þá vil ég að lokum óska velfarnaðar nýjum ráðherrum sem nú taka við gríðarlega viðamiklum verkefnum, þeim Ögmundi Jónassyni og Guðbjarti Hannessyni, hæstv. ráðherrum sem taka að sér að leiða saman í heila höfn sameiningu innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis. Þar undir eru gríðarlega stórir málaflokkar og miklir fjárhagslegir hagsmunir. Þar er veitt viðkvæm þjónusta við erfiðar aðstæður, ekki síst í velferðarráðuneytinu, og ég vil segja að mér líður vel með það í höndunum á Guðbjarti Hannessyni, hæstv. ráðherra, þaulreyndum manni úr fjárlaganefnd og úr sveitarstjórnarmálum. Ögmund Jónasson þekkjum við af atorku hans og dugnaði og bjóðum hann líka velkominn í hópinn á nýjan leik. (Gripið fram í.)

Það eru að skapast góðar forsendur til að snúa vörn í sókn. Við erum að snúa vörn í sókn, Íslendingar, við erum á tímamótum, það er orðinn viðsnúningur í hagkerfinu og það hlýtur að gleðja stjórnarandstöðuna. Ég trúi ekki öðru en að stjórnarandstaðan fagni því með okkur að margt hefur gengið betur en við óttuðumst að gera mundi. Að minnsta kosti hljóta þeir að gleðjast alveg sérstaklega í hjarta sínu sem fyrir ári eða einu og hálfu ári voru svartsýnastir. (Gripið fram í.) Einhverjir sögðu að stórfelldur landflótti væri að bresta á. (Gripið fram í.) Það voru menn sem sögðu að atvinnuleysi yrði kannski 20% á Íslandi. (Gripið fram í: Hver talaði um …?) Í aðdraganda kosningabaráttunnar vorið 2009 gerðu það ákveðnir menn. Menn töldu, og ekki bara svartsýnir stjórnarandstæðingar heldur spáaðilar, að landsframleiðsla á Íslandi mundi kannski dragast saman í heild um 12–15%.

Nú stefnir í að sá samdráttur verði í mesta lagi 8%, jafnvel ekki nema 7–7,5%. Það skyldu menn hafa í huga, og ekki síst formaður Sjálfstæðisflokksins, að fleira skiptir máli en bara hagvaxtarprósentur í spám inn í framtíðina. Það sem mun reynast okkur hvað dýrmætast er að viðsnúningurinn, hagvöxturinn kom meira en hálfu ári fyrr en við höfðum gert okkur vonir um og það verður 70–100 milljörðum kr. stærra hagkerfi sem tekur að vaxa. Botninn fór ekki eins langt niður þannig að vöxturinn verður í stærra hagkerfi og það fylgir okkur ár frá ári inn í framtíðina. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar allar spár og framreikningar eiga sér stað. Landsframleiðsla stefnir í að dragast mun minna saman en spár gerðu ráð fyrir, atvinnuleysi hefur reynst minna og er á niðurleið, vextir hafa lækkað umtalsvert, verðbólga sömuleiðis, og kaupmáttur launa hefur aukist á nýjan leik, mest hjá láglaunafólki. Þar er að þakka bæði skynsamlegum kjarasamningum sem skiluðu þeim litlu hækkunum sem menn töldu sig ráða við, fyrst og fremst á lægstu laun, og skattkerfisbreytingum sem hlífa lágtekjufólki við skattahækkunum. (Gripið fram í: En ellilífeyrisþegum?)

Þegar núna er greint hvernig álagning ársins 2009 kom út kemur í ljós að skattbyrðin, þ.e. skattur á móti tekjum, var minni við álagningu 2010 á tekjur fyrra árs en við álagningu 2009 hjá einstaklingi með tekjur undir 6 millj. kr. Það tókst sem sagt að gera nákvæmlega þær breytingar á skattkerfinu sem við ætluðum okkur og tekjujöfnunargildi aðgerðanna hefur aukist. Hið sama má þar af leiðandi gefa sér að verði niðurstaðan á árinu 2010 enda um nánast algjörlega sambærilegar áherslur að ræða.

Margt fleira af þessu tagi má tína til og það skiptir okkur máli. Hitt er alveg augljóst, frú forseti, að fram undan er áfram glíma við mikla erfiðleika. Við erum búin að ná árangri, við höfum séð og fengið staðfestan viðsnúning í hagkerfinu en Ísland á auðvitað langt í land með að endurheimta sinn efnahagslega styrk, ná hér aftur upp lífskjörum og ná niður atvinnuleysi og öðrum þeim hlutum sem við hljótum öll að sameinast um að við ætlum okkur að gera. En það skiptir miklu máli að vita að landið er að rísa, að það er orðinn viðsnúningur og að við erum að snúa vörn í sókn.

Við Íslendingar þurfum áfram á einu að halda umfram kannski flest annað og það þarf þessi salur hér líka að hafa í huga, við þurfum áfram anda samstarfs og samvinnu á Íslandi milli stjórnmálaflokka, stjórnar og stjórnarandstöðu og við heildarsamtök í atvinnulífinu og annars staðar.

Já, menn tala niður stöðugleikasáttmálann, það er mjög í tísku (Gripið fram í: Hann er ekki til.) að hrópa hann niður. (Gripið fram í: Hann er ekki til.) En vilja menn ekki aðeins velta fyrir sér mikilvægi þess sem þó tókst vorið 2009 — þó að ýmislegt hafi síðan gengið á í því samstarfi — að stilla saman kraftana og ná skynsamlegri lausn í launamálum fyrir svo til allan vinnumarkaðinn sem var viðráðanleg fyrir samfélagið? Við þurfum aftur á því sama að halda. (Gripið fram í.) Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að auðvitað er erfiður vetur í nánd, það vitum við. Hér þurfa að fara í gegn sennilega einhver erfiðustu fjárlög nokkru sinni, einfaldlega vegna þess að það verður enn aukið á kröfur um aðhald og sparnað ofan í það sem búið er í tvígang eða þrígang að leggja á rekstur hins opinbera. En það er óendanlega mikið í húfi að okkur takist það og þar með verður það versta afstaðið. Þar með ætti að vera lokið þörfum fyrir frekari beinan samdrátt í ríkisútgjöldum. Hagræðing á grundvelli skipulagsbreytinga og sameininga og batnandi gengi í efnahagslífinu eiga að geta skilað okkur því sem þá vantar upp á til að ná endum saman í ríkisfjármálunum á árinu 2013, það er takmarkið.

Eitt er á hreinu og það er að tækifæri og möguleikar Íslands eru óendanleg. Við Íslendingar höfum öll þau úrræði og alla þá möguleika sem við þurfum á að halda til að ná okkur í gegnum þetta. Í ljósi þó þess árangurs sem náðst hefur er engin ástæða til að kvíða því að það muni ekki takast. Það mun sannarlega takast. Þessi ríkisstjórn mun fara með landið í gegnum þessa kreppu og upp úr henni og þá er til nokkurs barist.