138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:28]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Frá því að þinghlé var gert í júní sl. hafa margir atburðir gerst sem gáfu ríkisstjórninni tækifæri til að stíga fram úr því skuggahorni sem hún hefur haldið sig í þegar almannahagsmunir eru annars vegar. Því miður hefur ríkisstjórnin þó kosið að standa áfram vörð um hagsmuni fjármagnseigenda í stað hagsmuna almennings í flestum málum. Til að reyna að fegra þetta afleita framferði er nú gripið til flókins ráðherrakapals til að halda friðinn á stjórnarheimilinu fyrst og fremst. Nýtilkynntar breytingar á ríkisstjórninni munu þó ekki breyta neinu og eru í raun ekkert annað en stjórnskipunarleg útfærsla á kennitöluflakki, aðferð sem alþekkt er í viðskiptalífinu. Skipt er um kennitölur á ráðherraembættum og skuldirnar skildar eftir á gömlu kennitölunni sem almenningur þarf svo að greiða, samanber afglöp fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra vegna myntkörfulánanna, og nýrri kennitölu er svo flaggað sem einhvers konar nýju upphafi.

Með þessu er ég þó ekki að lasta hina nýju ráðherra sem ég óska til hamingju með upphefðina. Þeir eru í einhverjum skilningi orðsins réttir menn á réttum stað. Þeir munu þó því miður fljótt gleyma því að þeir eru bara áfram peð í valdatafli stjórnmálaflokka hverra eðli og tilgangur er að viðhalda sjálfum sér umfram allt annað. Í því samhengi er ráðherratitill því lítið annað en hégómi einn.

Í janúar 2009 mættu þúsundir Íslendinga fyrir utan Alþingishúsið í hádegishléi sínu til að mótmæla sitjandi ríkisstjórn hverrar sumir ráðherrar og stjórnarþingmenn eru hér enn. Krafan var m.a. víðtækar lýðræðisumbætur vegna þess að fólkið var búið að fá nóg af þingmönnum sem misfóru með það framselda vald sem þeim var treyst fyrir. Fólkið hafði sigur að lokum þegar ríkisstjórnin hrökklaðist frá eftir sex sólarhringa, stofnuð var minnihlutastjórn og boðað til þingkosninga. Í þeim kosningum voru loforð um lýðræðisumbætur mjög algeng og hátt á blaði hjá öllum stjórnmálaflokkum og var framboð Borgarahreyfingarinnar, síðar Hreyfingarinnar, með það markmið sem kjarnann í sinni stefnuskrá. Því miður hefur lítið orðið um efndir síðan ný ríkisstjórn tók við. Þótt lög hafi verið samþykkt um stjórnlagaþing og með því fyrirheit um nýja, betri og lýðræðislegri stjórnarskrá hefur tregða Alþingis og þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni ekki leitt til samþykkis frumvarps um þjóðaratkvæðagreiðslur sem fyrst Borgarahreyfingin og síðar Hreyfingin hafa lagt fram tvisvar. Frumvörp hæstv. forsætisráðherra sjálfs um persónukjör hafa heldur ekki náð fram að ganga vegna andstöðu innan eigin þingflokka. Þar er á ferð sama sagan og endranær, þ.e. að þingmenn hugsa fyrst fremst um sjálfa sig og sín sæti, svo flokkinn og svo kannski almenning.

Frumvarp Hreyfingarinnar um fjölgun í sveitarstjórnum náði heldur ekki fram að ganga en í meðferð þess í þinginu kom hins vegar skýrt fram að skoðun fjölda þingmanna á lýðræði er hreint út sagt alveg stórfurðuleg. Stórkostlegust eru þó ummæli hæstv. fjármálaráðherra í sex greina bálki sem hann birti nýlega um að lög um þjóðaratkvæðagreiðslu hefðu tekið gildi og að kalli búsáhaldabyltingarinnar um lýðræðisumbætur hefði verið svarað. Þetta er einfaldlega ekki satt og má hæstv. ráðherra hafa skömm fyrir að vera ekki búinn að biðjast afsökunar og leiðrétta mál sitt.

Virðulegur forseti. Vissulega er vonarglæta fólgin í lögum um stjórnlagaþing og því ferli sem drög að nýrri stjórnarskrá þurfa að fara í gegnum. Það er mikil von bundin við stjórnlaganefndina, við þjóðfundinn og við stjórnlagaþingið sjálft þó að vissulega hafi blossað upp gagnrýnisraddir á þá þætti sem Hreyfingin benti á strax í upphafi að mættu fara betur. Sérstaklega er varhugaverð sú staða sem getur komið upp ef niðurstaða stjórnlagaþingsins er ekki borin undir álit þjóðarinnar áður en Alþingi fær niðurstöðuna til meðferðar. Ég hef nefnilega heyrt á sumum þingmönnum að þeir geta varla beðið eftir því að fá að krukka í niðurstöður stjórnlagaþingsins og við vitum hvað það þýðir. Því er það einboðið og algjörlega nauðsynlegt að útkoma stjórnlagaþingsins fari í dóm þjóðarinnar fyrst, fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu grein fyrir grein eða samhangandi greinar svo Alþingi sé ljós vilji þjóðarinnar áður en þingmenn og þau hagsmunaöfl sem stjórna sumum þeirra ná að læsa í hana tönnunum. Að öðrum kosti mun það samráð og sú samræða sem þarf að eiga sér stað milli þings og þjóðar ekki vera nema hjóm eitt.

Virðulegur forseti. Á því þingi sem nú sér fyrir endann á eftir um tvær vikur hafa verið lögð fram mörg mál. Því miður hafa fjölmörg merkileg mál ekki fengið þann framgang sem þau eiga skilið en þess í stað hafa ýmis afleit mál ríkisstjórnarinnar náð fram, mál sem ganga fyrst og fremst út á það að hæstv. forsætisráðherra geti hakað við hundrað mála listann sinn. Hér hefur ríkisstjórnin sóað tíma þingsins og þingið beygt sig í duftið.

Hér má nefna lög um dómstóla og skipan dómara sem eru blekking ein, lög um umhverfis- og auðlindaskatt frá síðustu fjárlagagerð sem fjármálaráðherra barðist fyrir en eru ekkert annað en neysluskattur á almenning. Þar er Ísland sennilega fyrsta landið í heiminum til að skilgreina auðlindaskatta með þessum fráleita hætti. Svo eru lög um siðareglur Stjórnarráðsins. Það frumvarp var samið fyrir embættismenn, um embættismenn og af embættismönnum, þeim sömu siðvitru og grandvöru mönnum og stuðluðu að hruninu með aðgerðum sínum. Hér má og nefna frumvarp um Stjórnarráð Íslands sem allsherjarnefnd afgreiddi nýlega en það frumvarp gerir hvorki ráð fyrir neinni hagræðingu, endurskipulagningu á vinnu né sparnaði og varð á endanum ekki nema hálft frumvarp vegna andstöðu Vinstri grænna við atvinnuvegaráðuneytið. (Gripið fram í: … ráðherra.) Alvarlegast er þó frumvarp fjórflokksins um fjármál stjórnmálaflokka sem er nýafgreitt úr allsherjarnefnd. Í því frumvarpi er enn þá gert ráð fyrir nafnlausum framlögum til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem og fjárframlögum frá fyrirtækjum.

Frú forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem virðulegur forseti lofaði svo mjög segir orðrétt um samspil peninga og stjórnmála, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.“

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Þrátt fyrir þessa ákveðnu niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar og þrátt fyrir áköf andmæli fulltrúa Hreyfingarinnar í allsherjarnefnd fékk þetta mikilvæga mál ekki efnislega umfjöllun í nefndinni og því var hafnað að fá gesti á fund nefndarinnar. Því var líka hafnað að bíða niðurstöðu þingmannanefndarinnar um málið. Fjórflokkurinn, gæslufélag sinna eigin pólitísku hagsmuna, hefur einfaldlega hafnað því að skýrsla rannsóknarnefndarinnar hafi eitthvert vægi þegar kemur að peningum til þeirra eigin flokka. Peningaþörf flokkanna og þar með þingmanna flokkanna skiptir meira máli en gagnsæi og lýðræði. Menn gera hvað sem er til að geta verið áfram í pólitík og ef flokkurinn skuldar, eins og t.d. Framsóknarflokkurinn, vel á annað hundrað milljónir króna skiptir það eitt máli.

Ef þetta frumvarp verður afgreitt óbreytt sem lög verður áfram til staðar sama umhverfi og sama samspil peninga, viðskiptalífs, leyndar og stjórnmála og var fyrir hrunið og sem var sú eitraða blanda spillingar sem átti svo stóran þátt í því. Þá má Alþingi hafa skömm fyrir. Í kjölfarið munu svo þeir þingmenn sem hrökkluðust út af þingi vegna vafasamra fjármálatengsla, þau Illugi Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skríða aftur inn á þing eins og ekkert hafi í skorist og bræðralag fjórflokksins mun taka á móti þeim. Aðrir lagsbræður þeirra, þeir algerlega forhertu sem engu skeyta, munu einnig sitja hér glaðhlakkalegir áfram. Það má þó hv. fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, eiga að hún hafði bæði siðvit til að hverfa af þingi og kjark til að loka á eftir sér. Hafi hún þökk fyrir það.

Frú forseti. Skuldavandi heimilanna er enn aðalvandamálið í íslensku samfélagi og þar hefur ríkisstjórnin því miður brugðist illa eina ferðina enn. Gengistrygging lána hefur að hluta til verið dæmd ólögleg og sandi kastað inn í gangverk þeirrar fjármálamaskínu fjármagnseigenda sem ríkisstjórninni er svo umhugað um. Það má þó ríkisstjórnin eiga að hún var ekki lengi að vakna og ganga erinda fjármálafyrirtækjanna hjartkæru og hafa ráðherrar hennar m.a.s. linnulítið reynt að hafa áhrif á Hæstarétt Íslands og dómsúrskurði hans með málflutningi sínum.

Komið hefur í ljós að innan stjórnsýslunnar voru til a.m.k. þrjú lögfræðiálit síðan á vormánuðum 2009 sem öll voru á sama veg, að gengistrygging lána væri ólögleg. Samt ákváðu stjórnsýslan og ráðherra efnahagsmála að gera ekkert í málinu og þegja það frekar í hel með mismunandi málflutningi, hálfsannleik og undanslætti. Í því efni var þessi þingsalur ekki einu sinni vettvangur sannleikans.

Þrátt fyrir að þúsundir manna og kvenna væru með gengistryggð lán og vitað væri að fjármálafyrirtæki gengju fram af mikilli hörku með aðfarar- og gjaldþrotabeiðnum gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þrátt fyrir að vitað væri að fjöldi fólks væri að missa heimili sín og landflótti væri vegna fjárhagsvandræða gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þá hafa fundir efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með hlutaðeigandi ráðherrum og stofnunum einfaldlega staðfest að það hvarflar ekki að þeim, hvorki ráðherrunum né stofnununum, hverjir hagsmunir almennings gætu verið í þessum málum, hvað þá heldur að það þurfi að gæta þeirra.

Frú forseti. Þetta aðgerðaleysi hvers afleiðingar hafa m.a. leitt til hörmunga sem aldrei verða afturkallaðar (Forseti hringir.) er algerlega ófyrirgefanlegt. Svona ráðslag og svona stjórnsýslu verður einfaldlega að uppræta (Forseti hringir.) og það er á ábyrgð Alþingis að gera það.