138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:38]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Frú forseti. Tiltrú almennings á samfélagið er í lágmarki. Stór hluti þjóðarinnar vantreystir stjórnmálamönnum og valdastofnunum. Vantraust og öryggisleysi ríkir ekki einungis á sviði efnahags- og atvinnumála, í andlegum efnum er sjálf þjóðkirkjan, sem um aldir hefur verið ein af grundvallarstofnunum íslensks samfélags, stórlega löskuð og flestir gera sér ljóst að m.a.s. efnishyggjan og mammonsdýrkunin hafa einnig brugðist okkur.

Hér ríkir ótti og öryggisleysi og það er kjörinn jarðvegur fyrir umsáturshugarfar, hræðslu við önnur lönd, einangrunarstefnu og tollamúra. Þessi útlendingahystería er fráleit því að sú aðalógn sem hefur steðjað að íslensku samfélagi hefur komið að innan. Það voru Íslendingar sem settu sitt eigið land á hausinn, ekki erlendir flugumenn.

Uppbyggingu hér eftir hrun miðar hægt. Verkefnið er stórt og mörg ljón í veginum, ekki síst sorglega útbreidd afneitun á augljósum orsökum hinna efnahagslegu þrenginga sem óprúttnir aðilar kölluðu yfir þjóðina í nafni siðlausrar hugmyndafræði. Bankar og slitastjórnir mynda hér ríki í ríkinu án umboðs frá þjóðinni. Það er hörmulegt að horfa upp á skilningsleysi stjórnvalda á þeim algjöra forsendubresti sem varð á lánamarkaði og dómstólar hafa staðfest, bæði í sambandi við gengistryggð lán og verðtryggð lán. Almennur forsendubrestur kallar augljóslega á almennar aðgerðir. Það er skrýtið að sú stjórn sem kennir sig við jafnaðarmennsku skuli þverskallast við að skilja að sértækar lausnir til að lengja í hengingaról skuldara eru beint framhald af þeim ójöfnuði sem fjármálastofnanir hafa beitt fólk í þessu landi með skelfilegum afleiðingum. Ég skora hér með á hæstv. ríkisstjórn að færa höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána einstaklinga aftur til verðlags janúarmánaðar 2008, þó með þeim hætti að hámarksniðurfelling verði um 15 millj. kr.

Sem betur fer hafa verið stigin skref í jafnréttismálum í þjóðfélaginu. Reynt hefur verið að jafna hlut fólks þannig að það þurfi ekki að gjalda fyrir kynferði sitt, trúarskoðanir, litarhátt eða kynhneigð. Aðalverkefnið situr samt á hakanum, það að auka hinn raunverulega jöfnuð í þjóðfélaginu. Í samfélagi okkar eru hinir ríku jafnari en aðrir. Af hverju skyldi fíknin í að græða peninga vera meira metin en gáfur, menntun, góðmennska eða hæfileiki til að kenna, hjúkra eða gleðja? Hamingja í þjóðfélagi byggist ekki eingöngu á vergri þjóðarframleiðslu, heldur á því að gæðum landsins sé réttlátlega skipt.

Eitt af hverjum 10 börnum á Íslandi tilheyrir fjölskyldu sem lifir undir fátæktarmörkum. Hver vill hafa þetta svona? Er ekki nóg komið af ójöfnuði í þessu landi?