138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:43]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki er annað hægt en fylgjast af aðdáun með þeim endurnýjunarþrótti sem blasir við í íslensku atvinnulífi. Þó að gjaldeyriskreppa hafi kallað á niðurskurð ríkisútgjalda og aukna tekjuöflun er atvinnuleysið minna en búist var við þó að enn sé það óásættanlegt. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða. Engu að síður eru mjög mörg stór verkefni fram undan vegna þess að við þurfum að skapa störf á breiðum grunni, og þá þurfum við að grípa til bæði sértækra og almennra aðgerða.

Gripið hefur verið til örvunaraðgerða á borð við opinberar stórframkvæmdir, hvatningu til viðhalds- og endurbótaverkefna með skattaívilnunum og sérstaks markaðsátaks með ferðaþjónustunni, því stærsta hingað til. Leiðarljósið er að verja vaxtarsprotana og skapa jarðveg fyrir hagvöxt, hvort sem tekist er á við bráðavanda eða stefnumótun til framtíðar.

Við sjáum mikla grósku í þekkingar- og hugverkaiðnaðinum í gegnum atvinnuauglýsingar. Þar erum við að horfa bæði til tölvuleikjaframleiðenda og einnig til orku- og umhverfistækni. Þá þróun viljum við styðja við, m.a. með nýsamþykktum skattalegum hvötum til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og til rannsókna og þróunar innan þeirra.

Virðulegi forseti. Fjárfestingarsamningar um uppbyggingu álvers í Helguvík og gagnavers á Ásbrú sýna í verki vilja okkar til að laða hingað erlenda fjárfestingu. Ekki væri úr vegi að ég sendi hv. þm. Bjarna Benediktssyni afrit af þeim fjárfestingarsamningum þar sem undirritun þeirrar sem hér stendur er svört á hvítu og sýnir þann vilja sem við höfum sýnt gagnvart þessum stórframkvæmdum.

Í Þingeyjarsýslu er unnið markvisst með heimamönnum og Landsvirkjun að því að koma orkunni á svæðinu í vinnu í þágu atvinnuuppbyggingar. Settur hefur verið almennur lagarammi um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Við getum því sýnt aukið frumkvæði í því að laða hingað erlenda aðila og kynna kosti Íslands mun betur en áður. Þá er fagnaðarefni að framkvæmdir vegna Búðarhálsvirkjunar fara senn af stað, og er það fyrsta stórframkvæmdin hér á landi eftir hrun. Því ber að fagna. Fram undan eru þó mörg brýn úrlausnarefni á sviði orkumála. Þröng staða orkufyrirtækjanna og breyttar forsendur í kjölfar fjármálakreppunnar tefja nú framgang stórverkefna á borð við álver í Helguvík. Þetta kom skýrt fram á fundi sem ég boðaði nýlega með hagsmunaaðilum sem að því verkefni standa.

Það þarf því að skoða með opnum huga leiðir til fjármögnunar í orkuvinnslu. Við höfum tryggt eignarhaldið á sjálfum orkuauðlindunum. Nú er til skoðunar hvernig styrkja megi lagarammann enn frekar svo að tryggt sé að orkan verði nýtt með sjálfbærum hætti í þágu almennings og atvinnulífs. Á vegum iðnaðarráðuneytisins starfar nú einnig stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland. Og þá er unnið að áætlun um orkuskipti í samgöngum sem sameinar gjaldeyrissparnað, umhverfissjónarmið, nýsköpun og fjölgun starfa. Þetta eru aðeins nokkur þeirra verkefna sem unnin eru í þágu atvinnulífsins. Uppbygging nýs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er tækifæri til að gera sjálft stoðkerfi atvinnulífsins einfaldara og markvissara.

Við munum í haust leggja lokahönd á nýjan framkvæmdasjóð ferðaþjónustunnar sem stutt getur myndarlega við uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum í þágu náttúruverndar, öryggis og hagsmuna ferðaþjónustunnar, auk þess sem þetta verður gríðarleg innspýting í það atvinnuleysi sem blasað hefur við hönnuðum og arkitektum og sömuleiðis innan byggingariðnaðarins. Markaðssetning á heilsulandinu Íslandi er jafnframt fram undan þar sem við ætlum að sækja á ferðamenn í leit að vellíðan utan háannatíma. Ég vil líka nefna sérstaklega rammaáætlun um endingu og nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem grundvöll sáttar í orkumálum. Við erum líka að vinna að því að leggja fram ný vatnalög í haust til þess að tryggja sátt á því sviði.

Virðulegi forseti. Það er okkar að skapa starfsumhverfi og styðja nýsköpun og þróun. Framtíðarsýn og stefnufesta er hluti þess umhverfis. Atvinnulífið og umheimurinn þarf að vita hvert við stefnum í gjaldeyrismálum og í tengslum okkar við mikilvægustu markaði. Því er umsókn um aðild að ESB jafnmikilvæg og raun ber vitni. Aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptaka evru mun fletja niður þá viðskiptahindrun sem krónan er og hefur verið í áratugi. Það er mín einlæga skoðun að það sé mikilvægasta aðgerðin sem við getum ráðist í í þágu íslensks atvinnulífs og ekki síður heimila sem þar með munu losna við verðtryggðu krónuna.

Virðulegi forseti. Það er aðeins með verðmætasköpun sem við getum staðið undir (Forseti hringir.) þeim bættu lífskjörum, menntun og velferð sem þessi ríkisstjórn stendur (Forseti hringir.) fyrir.