138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:54]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Þeir sem eru kosnir á Alþingi Íslendinga eru kosnir þangað til að láta gott af sér leiða. Það á við um okkur í stjórnarliðinu og það á við um þá sem eru í stjórnarandstöðu. Við þær aðstæður er það í rauninni flóknara að vera í stjórnarandstöðu, fyrir hana er léttast að sverta allt sem frá stjórninni kemur. En getur þetta verið öðruvísi? Getum við breytt þessu? Horfum t.d. á stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í Reykjavíkurborg. Þar hafa borgarfulltrúar minni hlutans ákveðið að taka þátt í stjórn borgarinnar af ábyrgð en veita samt aðhald svo sem skylt er. Ég hygg að við öll sem hér erum getum lært af þeim vinnubrögðum sem þar eru tíðkuð, enda er það kannski betur í takt við tímann en gamla stjórnarandstaðan sem leggur sig í líma við að sverta allt sem frá stjórninni kemur. Hvert einasta mál. Andi gömlu stjórnarandstöðunnar er reyndar smátt og smátt að hverfa úr sölum Alþingis sem betur fer og eiga margir stjórnarandstæðingar þakkir skildar fyrir að láta ekki stjórnast af hefðbundinni sýn niðurrifs og svartagallsrauss.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikill þrýstingur hefur verið á ríkisstjórnina að ýta til hliðar umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum til að ná innspýtingu svokallaðri í hagkerfið sem oft er nefnd í sömu andrá og stórframkvæmdir. Sagan hefur kennt okkur að það er aldrei mikilvægara en einmitt á samdráttartímum að huga vel að umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum og standa vörð um auðlindir okkar.

Umhverfismál skipa mikilvægan sess í framtíðaruppbyggingu Íslands og raunar alls mannkyns. Loftslagið, hlýnun jarðar, vatnið og misskipting auðs eru stóru verkefni 21. aldarinnar. Sjálfbær þróun í víðu samhengi verður að umlykja alla þá starfsemi sem mótar samfélagið. Leiðarljós sem snýst um jafnrétti kynslóðanna og jafnrétti þjóðanna, virðingu fyrir þeirri náttúru og þeim auðlindum sem við höfum að láni frá komandi kynslóðum og svo réttlætið þegar við ákveðum með hvaða hætti við nýtum þau gæði sem okkur er treyst fyrir. Allt þetta þarf að hafa í huga þegar teknar eru ákvarðanir, stórar sem smáar.

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur orðið fyrir harkalegri árásum en dæmi eru um í langan tíma. Því hefur verið haldið fram að klofningur sé innan raða flokksins. Það sést nú við endurskipulagningu ríkisstjórnarinnar að flokkurinn hefur ákveðið að standa þétt saman. Við skynjum það öll, rétt eins og verkafólk í vinnudeilu, að samstaðan er lykill raunverulegra breytinga. Í Evrópusambandsmálinu hefur verið reynt að stía okkur í sundur. Við erum mörg þeirrar skoðunar að umsóknarferlinu eigi að ljúka og það sé best fyrir land og þjóð að þjóðin fái samning til að taka afstöðu til. Því er haldið fram, og ekki síst af þeim sem þykjast vera bandamenn okkar í baráttunni gegn Evrópusambandinu, að við séum þar með að svíkja grundvallarhugsjónir flokksins. Staðreyndin er sú að það er enginn bilbugur á andstöðunni við Evrópusambandið í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hjá okkur er enginn Evrópusambandsandstæðingur betri eða verri en annar.

Við höfum staðið saman. Við höfum staðið með Samfylkingunni í að leysa mál og í því að lyfta Íslandi upp úr kreppunni sem hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins bjó til, sem 18 ára hægri stjórn bjó til, sem 18 ára hægri stjórn ber ábyrgð á. Í sviptingum hversdagsins er brýnt að horfa fram á við og gera sér grein fyrir því hvert er stefnt. Hagvöxturinn er að byrja að skila sér aftur. Þá skiptir öllu mál að hafa ríkisstjórn í landinu sem tryggir að hagvextinum verði skilað til þeirra sem skapa hann – til almennings í landinu. Tími hákarlanna er liðinn.

Átján mánuðir eru síðan minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við í kjölfar hrunsins. Hún styrkti sig í kosningum og hefur nú endurskipað liðssveit sína og ætlar að halda áfram. Hún ætlar að horfa til framtíðar með bjarta framtíðarsýn sem byggist á jöfnuði, náttúruvernd, kvenfrelsi og alheimssýn, en ekki þröngsýni. Á 18 mánuðum erum við byrjuð að snúa vörn í sókn fyrir Ísland en 18 mánuðir eru skammur tími miðað við þau 18 ár sem hægri stjórn réði hér ríkjum. Það er ekki komið að Sjálfstæðisflokknum við stjórn landsins. (Gripið fram í: Nei.)

Ég vil nota þetta tækifæri að lokum til að segja við félaga mína um allt land: Látum ekki íhaldið ljúga okkur í sundur. Hleypum ekki tortryggni og vantrausti inn á okkur. Tölum saman af heiðarleika og stillum saman strengina til nýrra verkefna. Látum hugsjónir okkar sameina okkur til nýrra tíma í sterkri ríkisstjórn. Höldum áfram að láta gott af okkur leiða í þágu almannahagsmuna en ekki einkahagsmuna og í þágu umhverfis- og náttúruverndar. — Góðar stundir.