138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stöðu og stefnu norrænu velferðarríkisstjórnarinnar að afloknum hrókeringum innan hennar. Ég vil nota tækifærið og óska nýjum ráðherrum til hamingju og velfarnaðar í störfum sínum, þeirra bíður ærið verkefni. (Gripið fram í.)

Eftir ráðherrabreytingarnar hefur ráðherrum sem sátu í hrunstjórninni 2008 fækkað um einn. Tveir sitja hér enn sem fastast, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Fram kemur í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna að lykilverkefni ríkisstjórnarinnar sé að endurreisa traust í íslensku samfélagi og orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Enn bregst ríkisstjórnin. Traust Íslands á alþjóðavettvangi verður ekki reist fyrr en allir ráðherrar hrunstjórnarinnar hverfa af vettvangi og út úr alþingissal. Þetta vita þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson sem fara með samskipti Íslands erlendis. Þau vita það mætavel en hafa kosið að stinga hausnum í sandinn, eins og oft áður.

Á ríkisstjórnarfundi fyrir stundu hættu fjórir ráðherrar í ríkisstjórninni og er það vel. Stefna Framsóknarflokksins er skýr, við viljum fækka ráðuneytum. Við vildum taka höndum saman með ríkisstjórninni og gera það í sátt eins og samið var um í vor. Eins og segir í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, á bls. 5, með leyfi forseta:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“

Ekkert samráð var haft við stjórnarandstöðuna, allt var svikið, við könnumst við það. Breytingarnar voru teknar í gegn á hnefanum og með hótunum. Við þekkjum vinnubrögðin. Þessi ríkisstjórn vill slagsmál um hvert einasta mál.

Samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna má finna á netinu og telur hún 17 blaðsíður. Í henni kemur m.a. fram að í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins leit ríkisstjórnin svo á að meginverkefni hennar yrði að draga úr atvinnuleysi, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustan grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar. Þetta meginverkefni hefur algjörlega misheppnast. Þrátt fyrir fagurgala ráðherra um að atvinnuleysið sé ekki jafnmikið og spár stóðu til er mikið atvinnuleysi hér á landi. Eins og formaður Framsóknarflokksins benti á áðan er ekki inni í atvinnuleysistölum Íslendinga sá mikli fjöldi einstaklinga sem hefur flutt af landi brott eða stundar jafnvel atvinnu erlendis frá Íslandi. Ríkisstjórnin hefur því tamið sér hálfsannleika í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum.

Ríkisstjórninni hefur hins vegar tekist vel upp í að ráða flokksgæðinga og annað gott fólk inn í Stjórnarráðið og aðrar opinberar stöður án auglýsinga að megninu til. Ráðningar í þau opinberu störf sem hafa verið auglýst hafa oftar en ekki verið afar umdeildar. Einn ráðherrann þurfti að draga ráðningu til baka nú á dögunum, svo mikil læti urðu út af því máli.

Atvinnuuppbyggingu getum við alfarið gleymt á meðan ríkisstjórnin situr við völd. Hún hefur valið sér þá eldgömlu og fúnu leið að skatta sig út úr vandanum í stað þess að minnka ríkisbáknið. Heildarútgjöld ráðuneytanna voru tæpir 6 milljarðar árið 2009. Það þarf marga einstaklinga á almenna vinnumarkaðinn til að standa straum af þeim kostnaði.

Nú gríp ég hér aðeins niður, með leyfi forseta, í stikkorð úr ræðum forsvarsmanna stjórnarflokkanna áðan:

„Árangursrík vinna undanfarna 18 mánuði“, „stakkaskipti“, „kreppunni lokið“, „grundvallarmál að verja auðlindir Íslands“, „verja fjárhag heimilanna“. — Frú forseti. Í hvaða veröld lifir ríkisstjórnin?

Brotin loforð alls staðar, segir í góðum dægurlagatexta eftir Bubba Morthens. Þetta eru skilaboð norrænu velferðarstjórnarinnar til almennings á Íslandi. Í stað þess að slá skjaldborg um heimili landsins ákvað ríkisstjórnin að ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að slá skjaldborg um lánardrottna og kröfuhafa. Almenningi blæðir.

Þrátt fyrir þá glansmynd sem hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra draga upp ganga þúsundir manna um atvinnulausir, eru að missa heimili sín, eiga vart fyrir mat, fallnir víxlar, engin vinna, veröldin er grimm og ljót. (Forseti hringir.) Við þurfum kjark til að takast á við vandamálin. (Forseti hringir.) Þann kjark hefur Framsóknarflokkurinn.