138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:04]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Það var einkennileg tilfinning að snúa aftur til starfa á Alþingi í dag og vita ekki hverjir mundu sitja í ráðherrastólunum. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim ráðherrum sem nú hverfa á braut fyrir störf sín og bjóða nýja velkomna. Sérstaklega vil ég þakka Rögnu Árnadóttur fyrir meiri fagmennsku í starfi en við eigum að venjast. Við vorum ekki alltaf sammála en það skipti ekki máli því að ég treysti henni og það er það sem skiptir mestu máli.

Við formönnum stjórnarflokkanna blasti ákveðinn vandi, það er alveg ljóst. Við höfum heyrt því fleygt að vandinn felist einkum í því að hluti þingmanna annars stjórnarflokksins hlýði ekki kröfum forustunnar. Ég held að það sé ekki rétt greining á vandamálinu. Ég held að vandinn felist í því að oddvitar stjórnarflokkanna hlusta ekki. Þeir hlusta hvorki á þingmenn sína, grasrótina í flokkum sínum né hjartsláttinn í þjóðfélaginu. Lausnin á þeim vanda er hvorki kattasmölun né leikur með ráðherrastólana.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir okkur svo glöggt hve hættulegt það er þegar völdin safnast á herðar tveggja stjórnmálamanna, oddvita flokkanna. Þeir einangrast og missa tengslin við veruleikann.

Frú forseti. Við erum í miðju hruni. Það hriktir í öllum helstu valdastofnunum samfélagsins. Fyrst hrundi fjármálakerfið, Alþingi er rúið trausti, stjórnmálaflokkarnir eru að molna og meira að segja þjóðkirkjan er komin að fótum fram. Við erum enn stödd í auga stormsins. Umbreytingarferli sem þetta er erfitt og það er á ábyrgð okkar allra að móta ásættanlegt samfélag. Það verk er ekki einungis á borði ríkisstjórnarinnar eða Alþingis, það er á ábyrgð allra landsmanna.

Stjórnmálin eiga ekki að vera einkamál stjórnmálamanna, þau koma okkur öllum við. Ég minni á að því fylgja ekki einungis réttindi að vera borgari, heldur líka skyldur. Það er á ábyrgð okkar allra að standa vörð um velferðarkerfið, menntun barna okkar, náttúru landsins og allt það góða sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða. Það er líka á ábyrgð borgaranna að bera burt fúnar spýtur, hvar sem þær leynast.

Frú forseti. Forsætisráðherra varð tíðrætt um meintan árangur í efnahagslífinu í ræðu sinni. Þó blasir við að skuldamál íslenskra heimila og fyrirtækja eru enn óleyst og óvissan ein fram undan þrátt fyrir margvíslegar lengingar í hengingarólum. Vandamálin hverfa nefnilega ekki þótt þau séu látin bíða. Þau eiga það hins vegar til að vaxa. Ég vek athygli á því að nú í haust rennur út frestur á uppboðum á heimilum fjölmargra landsmanna. Ríkisstjórnin hefur lofað hinum raunverulega landstjóra, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að ekki komi til frekari frestunar. Mörg heimili eru að fara í þrot vegna lánasamninga sem nú hafa verið dæmdir ólöglegir. Væri ekki rétt að reyna að vinda ofan af þeirri vitleysu áður en lengra er haldið? Ætlum við að líða það að fólk verði áfram gert gjaldþrota vegna ólöglegra lána?

Frú forseti. Mig dreymir um að búa í samfélagi þar sem réttlæti ríkir. Hér verður þó ekkert réttlæti fyrr en skuldir heimilanna verða leiðréttar og almannahagsmunir verða teknir fram fyrir sérhagsmuni, ekki bara stundum, heldur alltaf.