138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað af mikilli athygli á þær ræður sem hér hafa verið fluttar af stjórnarandstöðunni. Mér finnst, virðulegi forseti, full ástæða til að hafa áhyggjur af hvernig stjórnarandstaðan mætir til þings að loknu sumarleyfi. Hún virðist vera full af þunglyndi, bölmóði og svartsýni, (Gripið fram í.) sér ekkert ljós, ekkert nema myrkur fram undan. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því. Orðanotkunin sem hér hefur verið viðhöfð úr ræðustól er líka til að hafa áhyggjur af.

Hér er talað um að stefna ríkisstjórnarinnar sé helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum. Hvernig er hægt að nota svona orð? Hvaða orð mundu hv. þingmenn nota ef allt væri nú í kaldakoli í þjóðfélaginu? Það eru notuð orð eins og að ríkisstjórnin hafi ekkert fram að færa og það sé hirðuleysi og yfirsjón í kringum hana. Allt þetta sem stjórnarandstaðan segir um hirðuleysi, yfirsjón, helstefnu gegn heimilum og fyrirtækjum má heimfæra á stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á sínum tíma. Er það helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum, virðulegi forseti, að verðbólgan hefur á síðastliðnu eina og hálfa ári sem þessi ríkisstjórn hefur starfað ekki verið lægri í þrjú ár? Er það helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum að stýrivextir hafi verið lækkaðir úr 18% í 7%? Er það helstefna gegn fyrirtækjum? Ég bara spyr. Er það helstefna gegn heimilum og fyrirtækjum að atvinnuleysi er miklu, miklu lægra en spáð var? Ekki 20% eins og sumir í stjórnarandstöðunni spáðu, ekki 10% heldur komið niður í 7,5%. Er það helstefna gegn heimilunum að kaupmátturinn hefur minnkað? Nei, sannarlega ekki, virðulegi forseti. Við skulum reyna að skiptast hér á skoðunum af einhverju raunsæi þannig að fólkið úti í samfélaginu taki mark á okkur. (Gripið fram í: Einmitt.) Það er ekki hægt að taka mark á svona málflutningi þegar hagvísar í samfélaginu sýna allt annað en stjórnarandstaðan bendir á. Við eigum að geta skipst á skoðunum af raunsæi og í takt við sannleikann í samfélaginu.

Það er ekki allt algott í samfélaginu núna þó að við sjáum að mikið sé á uppleið og margt hafi breyst á jákvæðan veg. Landið er að rísa eins og fjármálaráðherra segir. Á ýmsu þarf að taka í atvinnumálum og stöðu heimilanna. En það er ekki svona svartsýni og bölmóður fram undan eins og stjórnarandstaðan bendir á. Ég vil meina að heimilin og fyrirtækin í landinu þurfi á allt öðru að halda héðan úr þessu virðulega húsi en þennan bölmóð.

Hér er sett fram og talað um sem staðreynd að ríkisstjórnin sé að skatta sig út úr vandanum, stórfelldar skattahækkanir o.s.frv. Hvað segir það okkur, virðulegi forseti, þegar niðurstaðan er sú að gjaldamegin hefur verið tekið á miklu meira með mun afgerandi hætti en nokkurn tímann að því er skattana varðar? Við þurfum að tala um að 78% hafi náðst gjaldamegin og 22% tekjumegin. Skattbreytingar sem við erum að fara í að, 8 milljarðar á næsta ári, gera lítið meira en að vega upp það sem skatttekjur hafa minnkað eða skattstofnar. Við skulum tala út frá sannleikanum, virðulegi forseti.

Það er ekki hægt að tala um minni samdrátt eins og formaður Sjálfstæðisflokksins gerði. Samdrátturinn er allt annar en spáð var og hefur skilað okkur miklu meira af því að hann hefur verið mun minni en Seðlabankinn spáði. Það skiptir tugum milljarða sem við sjáum í betri afkomu ríkissjóðs. Hvers konar málflutningur er þetta, virðulegi forseti? Ég er tilbúin að skiptast hér á skoðunum við stjórnarandstöðuna, en mér finnst fráleitt að við séum að ræða alvarleg málefni þjóðarinnar út frá framsetningu stjórnarandstöðunnar. Ég ætla að láta það verða mín síðustu orð, virðulegi forseti, að við getum í vetur átt betri og sanngjarnari og eðlilegri samskipti um stöðu mála í samfélaginu en út frá svona, (Forseti hringir.) mér liggur við að segja blaðri, virðulegi forseti, sem hér hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni.