138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

efnahagshorfurnar.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við upplifum enn og aftur enduróminn af umræðunni í gær. Það virðist vera svo að stjórnarandstaðan vilji ekki viðurkenna eða sjái ekki ljósið fram undan að því er varðar stöðuna í efnahagsmálum og líði hálfilla ef hreyfing er á því að hagvísar vísi í rétta átt en það er bara þannig. Við stöndum frammi fyrir því, virðulegi forseti, að hagvöxtur mældist meiri síðustu sex mánuði en reiknað var með hálfu ári áður og við sjáum bjartari tíma fram undan í því efni. Það er alveg rétt að núna er spáð minni hagvexti en menn reiknuðu með en sé horft á samdráttinn sem var 2009 og 2010 varð hann meiri en allar spár Seðlabankans sögðu fyrir um og í heildina skilar hann einhverjum tugum milljarða meira inn í hagkerfið á árinu 2010 og 2011 en ráð var fyrir gert. Við sjáum það í fjárlagagerðinni núna að við þurfum ekki að fara eins djúpt í niðurskurð og áætlað var, m.a. vegna þessa, og allar spár benda til þess að hagvöxturinn fari upp á næstu árum.

Við stóðum frammi fyrir því þegar við tókum við að hallinn á fjárlögum var á þriðja hundrað milljarða kr. en nú sjáum við fram á að í lok næsta árs, ef allt gengur eftir eins og við vonum, að hallinn á ríkisfjármálunum verði um 50 milljarðar. En það þýðir auðvitað að við þurfum að taka á honum á næsta ári, u.þ.b. 43 milljarðar. En minni samdráttur en ráð var fyrir gert (Forseti hringir.) skilar okkur meiri hagvexti, betri stöðu þjóðarbúsins og betri stöðu ríkissjóðs. Þar af leiðandi þurfum við ekki að fara eins djúpt í niðurskurð og tekjuöflun og við ella hefðum þurft.