138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjölmiðlaumhverfi á Íslandi.

[10:46]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Ég er hér með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur varðandi fjölmiðlaumhverfi á Íslandi. Fjölmiðlaumhverfi á Íslandi er að mjög margra mati meira og minna ónýtt eins og það er í dag og Ísland virðist vera að skapa sér sess sem fyrsta vestræna lýðræðisríkið án hins svokallaða fjórða valds, þ.e. þess aðhalds og þeirrar upplýsingaskyldu sem hvílir á fjölmiðlum og þar er Ríkisútvarpið ekki undanskilið. Afleiðingar þessa fyrir lýðræðið í landinu og samfélagið í heild eru óþekktar en geta orðið alvarlegar.

Í þannig umhverfi verður hlutverk Ríkisútvarpsins náttúrlega miklu mikilvægara en ella en þar á bæ hefur fréttaflutningur og fréttatengt efni farið mjög halloka vegna niðurskurðar og uppsagna fólks með mikla reynslu. Fréttastofan á RÚV virðist vera komin að fótum fram og virðist hvorki geta sinnt hlutverki sínu né endurskipulagt sig og virkar sem einhvers konar risaeðla föst úti í mýri. Ný fjölmiðlalög munu ekki breyta neinu þar um og einkareknir fjölmiðlar skipta í þessu samhengi í rauninni ekki neinu máli.

Spurningarnar eru því: Gerir menntamálaráðherra sér grein fyrir alvarleika málsins og því að sennilega getur ekkert bjargað Ríkisútvarpinu, sem er önnur af tveimur mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar, nema gagnger endurskipulagning? Finnst ráðherra ekki tímabært að láta endurskipuleggja Ríkisútvarpið frá grunni og byrja með hreint borð hvað umgjörðina varðar? Ef RÚV yrði stofnað upp á nýtt á morgun með sams konar hlutverk og útbúið til að sinna því með t.d. tveimur sjónvarpsrásum, tveimur útvarpsrásum og öflugum vefmiðli, hver þyrfti þá umgjörðin að vera varðandi húsnæði, tæknibúnað og starfsfólk?

Eða í stuttu máli ný nálgun á vandamálinu. Ef við ætluðum að stofna nýtt RÚV til að sinna sama eða svipuðu hlutverki, hvernig mundi það þurfa að vera með tilliti til húsnæðis, tæknibúnaðar og starfsfólks? Og er þetta (Forseti hringir.) ekki eina raunhæfa leiðin?