138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjölmiðlaumhverfi á Íslandi.

[10:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Það liggur auðvitað fyrir að þó að RÚV hafi fengið verulegar tekjur í gegnum útvarpsgjaldið svokallaða, tekjur sem námu u.þ.b. 3,2 milljörðum í fyrra, fyrir utan þær tekjur sem RÚV aflar sér með auglýsingum, hefur stofnunin um leið orðið að grípa til verulegra niðurskurðaraðgerða. Við höfum lagt á það áherslu við endurskoðun þess þjónustusamnings sem er í gildi og gildir raunar til 2012 — en gerir hins vegar ráð fyrir hækkandi framlögum en ekki lækkandi — að þar verði forgangsraðað og þá ekki síst í þágu lýðræðislegs hlutverks Ríkisútvarpsins, sem m.a. snýr þá að fréttastofunni og hlutverki hennar.

Af því að hv. þingmaður spyr mig um alvarleika málsins get ég tekið undir það að Ríkisútvarpið hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna fyrir hina lýðræðislegu umræðu, að tryggja öflugan fréttaflutning og það að sjónarmið heyrist.

Hvað varðar hins vegar seinni spurningu hv. þingmanns um endurskipulagningu frá núlli er það kannski mitt mat að það sé oft erfitt í raun að byrja á núlli þegar stofnun á sér sögu og hefur þróast á ákveðinn hátt. Hins vegar held ég að það sé mjög góð æfing að fara aðeins yfir það hvernig Ríkisútvarpið mundi líta út ef við stofnuðum það upp á nýtt á morgun, eins og hv. þingmaður lagði upp. Að mörgu leyti er Ríkisútvarpið með ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar sem tengjast sögunni, svo sem lífeyrisskuldbindingar og húsnæðið, sem hefur verið umdeilt hvort sé hentugasta húsnæðið akkúrat eins og tæknimál hafa þróast, og við höfum verið að fara yfir þá hluti.

Síðan má líka ræða hvernig nákvæmlega hlutverk Ríkisútvarpsins á að vera og um það hefur kannski aldrei náðst alger sátt í þessum sal frekar en í samfélaginu öllu, því að þetta er stofnun sem allir gera miklar kröfur til en um leið má segja að hún sé líka mikið gagnrýnd. (Forseti hringir.)