138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjölmiðlaumhverfi á Íslandi.

[10:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður nefnir fjölmiðla og fjórða valdið, þá liggur hér fyrir frumvarp sem setur fjölmiðlum á Íslandi ákveðinn ramma. Það leysir vissulega ekki öll vandamál íslenskra fjölmiðla en ég held að það sé mikilvægt að líta til þess að löggjöf okkar er í raun og veru allt önnur en löggjöf annarra vestrænna ríkja. Af því að hv. þingmaður lítur til þess þá höfum við í raun og veru verið með mjög takmarkaða löggjöf á þessu sviði.

Hvað varðar Ríkisútvarpið, þá gekk það í gegnum miklar breytingar 2007 þegar rekstrarformi þess var breytt og mér finnst mjög mikilvægt að við metum hvernig þær breytingar hafa tekist og hvernig við getum m.a. aukið lýðræðislegt aðhald með stofnuninni. Mér finnst mjög mikilvægt að þjóðin eigi aðgang að þessari stofnun sem sinni stofnun og ég held að við munum þurfa að fara yfir það hvernig við getum aukið bæði aðkomu og þátttöku almennings þegar kemur að því að móta stefnu fyrir RÚV. Ég hef jafnvel velt upp hugmyndum um einhvers konar dagskrárþing eða eitthvað slíkt sem mætti halda (Forseti hringir.) til þess að formgera þessa umræðu með einhverjum hætti.