138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

gengistryggð lán.

[10:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að síðustu missiri hafa verið fólki og fjölskyldum sem tóku myntkörfulán afar erfið. Að mörgum þeirra hefur verið gengið af lánardrottnum, sumir hafa misst eigur sínar og aðrir þurft að grípa til örþrifaráða til þess að bjarga eigum sínum.

Á sama tíma og þetta allt saman hefur gengið yfir fjölskyldurnar í landinu var ríkisstjórnin upplýst um, a.m.k. hæstv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, af hálfu lögmanna hér í bæ og lögfræðings Seðlabankans að gengistryggð lán væru ólögmæt samkvæmt núgildandi lögum. Það merkilega er hins vegar það að hvorki þingið né þjóðin voru upplýst um álitin eða efni þeirra. Ríkisstjórnin lá með öðrum orðum á þessum lögfræðiálitum, sem hefðu verið beittustu vopn skuldugra einstaklinga í samskiptum þeirra við fjármálafyrirtækin. Það er kaldranalegt að hugsa til þess að ríkisstjórn, sem hefur haft uppi mikil og mörg orð um það að ætla að slá skjaldborg um skuldug heimili landsins, skuli haga sér með þessum hætti.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi vitað um tilvist, efni og niðurstöður þessara álita þegar þau komu fram, en þau voru skrifuð 12. og 18. maí 2009. Ég er ekki að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort álitin hafi formlega borist fjármálaráðuneytinu eða komið inn á hans borð, ég vil fá að vita hvort hæstv. fjármálaráðherra, líkt og þáverandi (Forseti hringir.) hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, vissi af álitunum, þekkti efni þeirra og niðurstöður.