138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1442 um 341. mál sem er tillaga til þingsályktunar um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. 1. flutningsmaður er hv. þm. Höskuldur Þórhallsson en ásamt honum flytja tillöguna hv. þm. Björn Valur Gíslason, Þuríður Backman, Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að Alþingi feli utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti að vinna ásamt Háskólanum á Akureyri að undirbúningi árlegrar ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna og að jafnframt verði leitað alþjóðlegs samstarfs og stuðnings við þetta verkefni.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og borist umsagnir frá Akureyrarbæ, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Háskólanum á Akureyri, Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál, Siglingastofnun Íslands, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun og utanríkisráðuneyti.

Í greinargerð með þessari tillögu er greint frá heimskautaráðstefnum sem haldnar voru á Akureyri árin 2008 og 2009 og lögð áhersla á að árlegt ráðstefnuhald muni treysta Akureyri í sessi á heimsvísu í umræðunni um stöðu heimskautasvæðanna. Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir gagnvart tillögunni og því að efla Akureyri sem miðstöð norðurslóðasamstarfs hér á landi. Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál bendir á að hafa beri núverandi efnahagsástand í huga við afgreiðslu málsins og í umsögn utanríkisráðuneytis er m.a. minnt á að ráðuneytið sé rekið undir ströngustu kröfum um niðurskurð og sparnað en að það sé engu að síður reiðubúið að kanna grundvöll árlegrar ráðstefnu um heimskautasvæðin. Við umfjöllunina í nefndinni komu fram þau sjónarmið að þetta væri jákvætt mál. Þess vegna segir í nefndarálitinu að nefndin taki undir þessi sjónarmið og undirstriki jafnframt með tilliti til og hliðsjón af umsögnum að fjárhagslegur stuðningur ráðuneyta og stofnana ríkisins við reglulegt ráðstefnuhald á Akureyri um norðurslóðamál verði að ráðast af fjárhagslegu svigrúmi ráðuneytanna hverju sinni. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að hafa í huga, en jafnframt er rétt að benda á að stuðningur ráðuneyta við ráðstefnuhald af þessu tagi getur einnig verið í öðru formi en með beinum fjárhagslegum framlögum. Ráðuneytin geta komið með ýmis fagleg atriði inn í ráðstefnuhald af þessu tagi.

Ég vil í þessu sambandi upplýsa að utanríkismálanefnd hélt fund á Akureyri 25. ágúst sl. og kynnti sér starfsemi Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og starfsemi Háskólans á Akureyri. Hún ræddi sérstaklega um málefni norðurslóða og almennt um öryggis- og varnarmál og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að nefndarmenn í utanríkismálanefnd voru sannfærðir um að sú starfsemi sem fram fer á Akureyri í tengslum við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólann á Akureyri sé mjög mikilvæg fyrir okkur, hafi náð gríðarlega miklum árangri og komið Íslandi á blað í þessum málaflokki sem er ört vaxandi og æ fyrirferðarmeiri í alþjóðamálum. Þess vegna segir einnig í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur áherslu á að norðurslóðamál séu eitt af forgangsverkefnum íslenskrar utanríkisþjónustu eins og kom skýrt fram í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis í maí sl. Nefndin hefur kynnt sér hið metnaðarfulla starf sem unnið er á vegum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri á sviði norðurslóðamála og telur að árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna sé rökrétt framhald þar á og mikilvægur stuðningur við það starf.“

Að sjálfsögðu var einnig rætt í nefndinni hvort skynsamlegt væri að samþykkja þingsályktunartillögu um að ákveða árlega ráðstefnu á tilteknum stað á landinu. Það má færa rök fyrir því að það sé frekar óvenjulegt en þá verður einmitt að hafa í huga að Akureyri hefur í raun fest sig í sessi sem miðstöð þessara mála hér á landi og við í utanríkismálanefnd teljum að sýna eigi þessu mikilvæga starfi virðingu og stuðning með því að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir.

Ég undirstrika að fjárhagslegur stuðningur mun að sjálfsögðu ráðast af því svigrúmi sem viðkomandi ráðuneyti og stofnanir hafa hverju sinni en við teljum að hér sé verið að senda mikilvæg skilaboð um að við kunnum að meta það starf sem þarna fer fram og teljum brýnt að halda því áfram og styrkja þessa starfsemi frekar ef eitthvað er.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nefndarálit skrifa Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Einar K. Guðfinnsson, Margrét Tryggvadóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ögmundur Jónasson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.