138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef áður lýst stuðningi við þessa þingsályktunartillögu sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er 1. flutningsmaður að. Ég tel að hún sé jákvæð. Það er rétt sem hv. formaður utanríkismálanefndar sagði í framsögu sinni fyrir nefndaráliti að Akureyri hefur þróast í það að vera eins konar miðstöð norðurslóðarannsókna og ég tel að það sé vel þess virði að styrkja þá þróun.

Hitt er svo það, eins og hv. þingmaður sagði, að þá er ráðuneytinu sem ég fer með forstöðu fyrir núna skorinn ákaflega þröngur stakkur. Þar hafa hv. þingmenn eins og vera ber farið með skurðhnífinn nokkuð nákvæmlega ofan í fjárreiður ráðuneytisins. Þess vegna fannst mér mikilvægt að hv. þingmaður sagði það alveg skýrt að stuðningurinn við þetta gæti orðið með annars konar hætti en beinlínis fjárframlögum en hugmyndin er góð. Þær rannsóknir sem hafa farið fram á Akureyri í tengslum við starf þeirra stofnana sem hv. þingmaður nefndi, einkum á sviði heimskautaréttar, eru mjög þarfar og mjög mikilvægar.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að á síðustu áratugum hafi kannski verið lögð ójöfn og ekki kórrétt áhersla þegar menn hafa verið að veita af hálfu framkvæmdarvalds og þings fjármuni til rannsókna á sviði hafréttar. Ætli við höfum ekki lagt á síðasta áratug fast að milljarði í það að þróa landfræðileg rök fyrir tilkalli okkar til Hatton-Rockalls svæðisins? Hugsanlega mun það leiða til þess að við fáum þar ítök. Það yrði jákvætt. Ég er ekki alveg viss um hverjar verða hinar beinu hagnýtu afleiðingar af því. Hitt er alveg ljóst að það sem hefur skort á er að þróa hin lögfræðilegu rök fyrir stöðu okkar sem strandríkis gagnvart Norðursjó. Lega Íslands og efnahagslögsögunnar gagnvart norðrinu er með þeim hætti að við getum gert tilkall til slíkrar stöðu. Það þarfnast hins vegar flókins lögfræðilegs rökstuðnings og við þurfum með vísindamönnum okkar á Akureyri en líka vísindamönnum við aðra háskóla, sem eru einnig að velta þessu fyrir sér, að þróa þessi rök. Á næstu árum tel ég að það sé mjög mikilvægt að menn beini með skipulegum hætti fjárstuðningi til þess.

Ég hef sagt algjörlega skýrt að ég lít svo á að norðurslóðir séu eitt af forgangssviðum utanríkisráðuneytisins. Þegar ég hélt ræðu mína um utanríkismál hér á síðasta vetri fjallaði þriðjungur þeirrar ræðu um norðurslóðir. Þar lagði ég fram í tíu liðum drög að stefnu Íslendinga í þeim málaflokki. Ég lýsti því sömuleiðis yfir að ég hefði fullan hug á því að leggja fram þingsályktunartillögu til umfjöllunar á Alþingi þar sem sú stefna væri mótuð gerr. Auðvitað er það svo að stefna af þessu tagi er aldrei fullmótuð og er jafnan í þróun, en ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að koma að því. Ég fagna þess vegna að utanríkismálanefnd hefur lagt áherslu á þetta með þessum vinnudegi sínum fyrir norðan. Ég tel að það sé ákaflega jákvætt.

Ég vil líka geta þess hér að fleiri háskólar hafa hug á stökum ráðstefnum um afmörkuð málefni, m.a. ein stofnun við Háskóla Íslands. Ég tel að það sé jákvætt. Mér finnst ágætt að það ríki svolítil samkeppni millum háskólanna á þessu sviði, en ég ítreka það hins vegar að Akureyringar hafa forskot og hafa sýnt lofsvert frumkvæði gagnvart þessum málaflokki. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við finnum leiðir til að halda áfram þeirri vinnu og því námi sem þar hefur verið boðið upp á í heimskautarétti í framtíðinni.

Það er engum blöðum um það að fletta að breytingar sem eru að verða á veðurfari munu leiða til þess að mikilvægi norðurslóðanna getur bara aukist. Við sjáum fram á að vegna bráðnunar sem er örari en menn áttu von á og þó miklu örust á norðursvæðunum mun tvennt gerast. Í fyrsta lagi munu opnast upp svæði sem áður voru lokuð fyrir ágangi þar sem menn geta unnið olíu og gas. Hugsanlega verður þrýstingurinn á það ekki jafnmikill og menn töldu kannski fyrir einu til tveimur árum. Ástæðan er sú að það hefur orðið mjög ör þróun í gasvinnslu, hið svokallaða Shale-gas gerir að verkum að hægt er að vinna gas úr jarðlögum sem menn gátu ekki áður og með ódýrari hætti. Þetta kann að draga úr þessum þrýstingi og að hann verði ekki eins mikill og menn töldu. En þetta mun gerast eigi að síður síðar á þessari öld.

Hitt mun líka gerast að það opnast siglingaleiðir úr Kyrrahafinu um Norður-Íshafið og hingað til Norður-Atlantshafs vegna bráðnunar. Í síðasta mánuði gerðist það að rússneskt olíuskip sérbúið til siglinga um slík íssvæði fór sína fyrstu ferð þar og ég tel að það séu ákveðin tímamót. Sömuleiðis er það alveg ljóst að erlendar stórþjóðir sem eiga mikið undir viðskiptum við Evrópu og Bandaríkin og eru fjarri þessum heimsálfum fylgjast mjög grannt með þessu. Kínverjar eru t.d. þar á meðal. Kínverjar hafa af þeim sökum sótt eftir því að fá aukaaðild að Norðurskautsráðinu og þeir hafa nú þegar sett upp rannsóknarstöð á landsvæði sem heyrir undir Norðmenn, þ.e. á Svalbarða. Ég er þeirrar skoðunar að ef erlend ríki vilja setja upp rannsóknarstöðvar á Íslandi til að fylgjast með þessu þá eigum við að skoða það með mjög jákvæðum huga. Ég tek það þó skýrt fram að ekkert þeirra hefur til þessa falast eftir slíku.

Það er að verða snar þáttur af utanríkisstefnu okkar að treysta og efla samskiptin við þau ríki sem liggja beinlínis að norðurskautinu. Það er ljóst að norðurskautsráðið, þar sem við eigum fulla aðild að, mun mjög eflast á næstu árum. Við fylgjum þeirri stefnu að sú stofnun verði vettvangurinn þar sem menn útkljá deilur. Við teljum líka að á þeim vettvangi og innan ramma hafréttarsamningsins sem Íslendingar áttu mikinn þátt að á sínum tíma sé hægt að leysa allar deilur um landsvæði. Það breytir ekki hinu að reynslan sýnir að þegar opnast svæði þar sem er að finna auðlindir þá leiðir það oft til kapphlaups og í kjölfar þess fylgir oft hervæðing. Eitt af því sem við þurfum að berjast gegn er að norðurslóðirnar hervæðist að nýju eins og mátti segja að hefði verið hér á tímum kalda stríðsins.

Ég tel að Íslendingar eigi að reyna að festa rætur í þessu samstarfi eins tryggilega og hægt er. Þar gildir eins og á öllum öðrum sviðum að þeir sem hafa þekkingu hafa forskot. Sum stórveldanna hafa sýnt þessu máli ákaflega og undarlega lítinn áhuga. Við höfum hins vegar verið mjög vakandi yfir þessu. Það hefur komið skýrt fram að íslensk stjórnvöld hafa mótmælt því mjög harkalega þegar með einhverjum hætti hefur verið sneitt að hlut Íslendinga. Ég nefni sem dæmi að þegar Kanadamenn héldu ráðstefnu hinna svokölluðu fimm strandríkja þar sem m.a. Íslendingar höfðu ekki fulla aðild var því harkalega mótmælt af nokkrum erlendum fjölmiðlum, þar á meðal kanadískum. Það var sömuleiðis farið í diplómatískt úthlaup til allra okkar helstu samstarfsaðila til þess að fá þá í lið með okkur til að mótmæla því. Eins og menn muna leiddi það til þess að stórveldi tóku upp hanskann fyrir ríki eins og Ísland og sumar frumbyggjaþjóðirnar sem byggja þessi svæði.

Eitt af því líka sem ég tel að Íslendingar eigi jafnvel að hafa frumkvæði að hvað varðar rannsóknir og ráðstefnuhald til þess að sýna málefninu stuðning eru réttindi frumbyggja. Ég tel að við sem smáþjóð eigum ekki að hika við að stíga fram og styðja þau eins og hægt er. Reynslan sýnir að stórveldin hafa ákveðna tilhneigingu til þess að horfa fram hjá þeim og gera þá léttvæga.

Í stuttu máli, frú forseti, ég segi það bara fyrir hönd ráðuneytisins að ég tel að það sé jákvætt að þessi tillaga verði samþykkt og yrði allra manna glaðastur ef hv. þingmenn kjördæmisins mundu leggjast á lið með ráðuneytinu til þess að útvega ríflega fjárveitingu til þessa verkefnis.