138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:23]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna þar sem utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti er falið að vinna ásamt Háskólanum á Akureyri að undirbúningi árlegrar ráðstefnu um málefni heimskautasvæðanna. Jafnframt verði leitað alþjóðlegs samstarfs og stuðnings við verkefnið og að áskorun hæstv. utanríkisráðherra munum við þingmenn kjördæmisins að sjálfsögðu vinna vel að því verkefni.

Nú þegar hafa verið haldnar tvær slíkar ráðstefnur á Akureyri um lögfræðileg málefni. Sú fyrsta í september 2008 og síðan önnur í september 2009 og svo stendur fyrir dyrum sú þriðja sem haldin verður dagana 9.–11. september og í ár verður umfjöllunarefni ráðstefnunnar mannréttindi og stjórnfesta á heimskautasvæðunum.

Í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar kemur fram mjög eðlileg varfærni í fjármálum á þessum tímum. Það er mjög eðlilegt en vonandi tekst eftir sem áður að fjármagna þá ráðstefnu þannig að við getum haldið þessar ráðstefnur. Ég er mjög ánægð með þá áherslu sem hér kemur fram þar sem segir að nefndin leggi áherslu á að norðurslóðamál séu eitt af forgangsverkefnum íslenskrar utanríkisþjónustu. Þá lýsi ég yfir sérstakri ánægju minni með vinnubrögð hv. nefndar sem lagði á sig ferðalag til Akureyrar og kynnti sér þar bæði málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og jafnframt Háskólans á Akureyri og tekur undir eða samþykkir þessa tillögu.

Mig langar aðeins til að gera grein fyrir þeirri metnaðarfullu starfsemi sem fram fer á Akureyri í þessum málaflokki. Annars vegar hófst nám á meistarastigi í heimskautarétti 2007 þar sem fjallað er um álitamál á þessum vettvangi, en það er mál sem ég held að við gerum okkur ekki almennilega grein fyrir hversu mikilvægt er að við hugum vel að þar sem væntanlega munu koma upp deilur um landamæri og markalínur hafsvæða og þær eru nú reyndar þegar hafnar. Þar er einnig lögð áhersla á að við gætum þar lært af þeim reglum sem til eru fyrir suðurskautslandið.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er síðan mjög viðurkennd stofnun sem mér finnst hafa afskaplega metnaðarfull og skynsamleg markmið. Þar er lögð áhersla á þverfaglega og fjölþjóðlega umfjöllun um fræðilegar og hagnýtar lausnir á viðfangsefnum sem tengjast þessu svæði og að ekki sé vænlegt að slíta náttúruvernd úr samhengi við náttúrunýtingu eða þá viðleitni fólks að afla sér fæðu eða sjá sér farborða. Jafnframt finnst mér skipta mjög miklu máli að sú stofnun leggur áherslu á varðveislu menningarlegrar fjölbreytni og möguleika smárra samfélaga til að lifa í samræmi við eigið gildismat.

Ég vona svo sannarlega að í þeirri vinnu sem nú hefur farið fram um sóknaráætlun 20/20 hafi verið tekið tillit til þess á Eyjafjarðarsvæðinu hversu mikilvægt er að þessi sérstaða Háskólans á Akureyri og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar sé stór hluti af hinum akademíska veruleika sem þar er og fái í kjölfarið fjármuni eða ákveðinn stuðning til að festa þá sérstöðu í sessi.