138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Þegar hæstv. ráðherra segir að ég ætti að lesa Morgunblaðið eins og hann, þá veit ég ekki með hvaða hætti hæstv. ráðherra les blaðið. Enn fremur beindi hann þeim tilmælum til þess sem hér stendur að fljúga hærra. Þá geri ég þá játningu að ég hef miklu meiri unun af því að sigla. En hæstv. ráðherra hefur atvinnu af því að ferðast með flugi á milli landa og hefur sinnt skyldum sínum með þeim hætti (Gripið fram í.) í mínu umboði og ég treysti honum miklu betur en mér og held að hann hafi frekar burði til að fljúga með þeim hætti með himinskautum.

Það mætti skilja orð hæstv. ráðherra um Evrópusambandið og norðurslóðastarf og miðstöð Evrópusambandsins á Akureyri því tengdu með þeim hætti að ef við gengjum ekki í Evrópusambandið yrði miðstöð norðurslóðarannsókna Íslands byggð upp við Háskóla Íslands, ef ég kýs að snúa út úr orðum hæstv. ráðherra með þeim hætti. (Gripið fram í.) Við tökum þá umræðu aftur seinna og það gefast örugglega full færi til þess þegar hin eftirsótta þingsályktunartillaga nokkurra þingmanna verður væntanlega tekin til afgreiðslu á þessu stutta septemberþingi, þá getum við farið mjög víða um völl í þeirri umræðu og ég treysti hæstv. ráðherra til að eiga orðastað við mig í þeim efnum.

Það kann vel að vera að við verðum tiltölulega þröngsýnir með aldrinum og ekki eins opnir fyrir öllum nýjungum en sumir segja að við þroskumst líka. Það kann vel að vera. Ég veit ekki hvernig því háttar til í samskiptum okkar hæstv. ráðherra en ég tel að þó að þau hafi verið ágæt hafi þau þróast til betri vegar á síðari árum. Meira að segja meðan við vorum saman í vinnu við ákveðnar aðgerðir meðan ég sleit bæjarstjóraskónum á Ísafirði, svo ég vitni til orðalags hæstv. ráðherra. Í gegnum tíðina höfum við átt mikla og góða vinnu saman og ég treysti því að svo verði áfram.