138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla örstutt hér í lok umræðunnar að þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram. Allir sem hafa tjáð sig um málið hafa lýst yfir stuðningi við þingsályktunartillöguna og meðferð utanríkismálanefndar á henni. Ég geng út frá því að það verði breiður stuðningur við hana í þingsal þegar hún kemur til atkvæðagreiðslu.

Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra þegar hann fjallaði almennt um mikilvægi norðurslóðamála í utanríkisstefnu Íslands, aukið vægi norðurslóðanna á komandi árum í alþjóðamálum og þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar. Því mun fylgja aukin virkni og aukin starfsemi á norðurslóðum. Það getur bæði orðið til góðs og ills. Þetta er mjög viðkvæmt svæði og viðkvæmt lífríki sem við þurfum að gæta vel að. Auk þess geta fylgt þessum breytingum heilmikil sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga.

Utanríkismálanefnd fjallaði ekki aðeins um þessa tillögu sem varðar norðurslóðirnar, heldur almennt um stefnumörkun stjórnvalda í norðurslóðamálum, það gerðum við á vinnufundi okkar á Akureyri og ræddum auk þess um öryggis- og varnarmál. Það er hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra, sem vitnaði í skýrslu sína frá því fyrr á þessu ári um utanríkismál þar sem farið var ítarlega yfir norðurslóðamálið, þegar hann tengdi saman þær breytingar sem hér eiga sér stað og áhersluna sem við Íslendingar eigum að leggja á málefni norðurslóða. Þar eru nokkur meginatriði sem íslensk stjórnvöld eiga að hafa að leiðarljósi í utanríkisstefnu sinni varðandi málefni norðurslóða og heimskautasvæðanna. Mikilvægt er að leggja áherslu á hluti eins og herleysi, að Ísland sé herlaust land og að norðurslóðirnar vígvæðist ekki. Þess vegna vil ég leggja áherslu á viðhorf hæstv. utanríkisráðherra sem komið hafa fram í ræðu hans og riti að hafa þarf nýja nálgun að leiðarljósi í stefnumótun í öryggismálum okkar. Þau munu væntanlega taka afgerandi á norðurslóðamálunum og hvernig við viljum standa þar að málum.

Frú forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu og ítreka einnig þakkir utanríkismálanefndar til þeirra sem lagt hafa okkur lið í þessu máli. Ég vil sérstaklega nefna þar starfsfólk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri sem sátu með okkur á vinnufundi heilan dag um þessi mál sem og starfsfólk utanríkisráðuneytisins. Ég vil nefna Val Ingimundarson sagnfræðing sem einnig hefur látið sig þessi mál miklu varða. Hann sat með okkur á vinnufundi á Akureyri þar sem hann fræddi okkur um ýmsar nýjungar og horfur í þróun þessara mála næstu árin og áratugina, frá fræðilegu sjónarhorni.

Enn og aftur þakka ég fyrir þessa umræðu og vænti þess að tillagan nái fram að ganga og að henni muni fylgja sá styrkur og stuðningur sem við gjarnan viljum sýna í verki við starfsemina á Akureyri.