138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna, eins og þingsályktunartillagan heitir, á þskj. 1445. Nefndin hefur fjallað um þetta mál. Tilgangur samningsins sem hér er til umfjöllunar er þríþættur. Í fyrsta lagi að stuðla að og styrkja ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti; í öðru lagi að stuðla að, greiða fyrir og styðja við alþjóðlega samvinnu og tæknilega aðstoð til að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu, m.a. við að endurheimta fjármuni; og í þriðja lagi að stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna.

Það er rétt að vekja athygli á því að samhliða þessari þingsályktunartillögu hefur hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum sem eru nauðsynlegar og leiða af samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Sú breyting sem lögð er til með frumvarpinu er nauðsynleg til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem felast í þessum samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og hann kveður á um. Það má líka nefna að einn hluti af þessari vinnu er siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn og ráðherra sem hæstv. forsætisráðherra hefur unnið að og við höfum haft hér til umfjöllunar.

Utanríkismálanefnd leggur áherslu á að spilling er alvarleg meinsemd sem grefur undan lýðræði og réttarríkinu og að barátta gegn henni hljóti að vera mikilvægt forgangsverkefni stjórnvalda á hverjum stað. Spilling nær yfir landamæri og með þróun síðustu áratuga í átt til aukinnar hnattvæðingar og opnara alþjóðasamfélags er enn mikilvægara en áður að ríki heims taki höndum saman og vinni gegn henni. Nefndin fagnar þeim skrefum sem stigin eru með samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og telur að í samningnum og fyrrnefndum lagabreytingum felist mikilvæg tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld til að berjast gegn spillingu.

Hv. utanríkismálanefnd leyfir sér að gera tillögu um breytingu á fyrirsögn tillögunnar. Eins og ég sagði er heiti tillögunnar: Tillaga til þingsályktunar um aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Mönnum fannst orðalagið vera tvírætt. Nefndin leyfir sér að leggja til að tillagan orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Þannig er það alveg ljóst að við erum ekki að gerast aðilar að samningi um spillingu, heldur gegn spillingu.

Undir þetta nefndarálit skrifa Árni Þór Sigurðsson, Ögmundur Jónasson, Margrét Tryggvadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Helgi Hjörvar, Sigurður Kári Kristjánsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Nefndin leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.