138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

meðferð einkamála.

687. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um svokölluð málsóknarfélög.

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til þess að mæla fyrir þessu frumvarpi sem er flutt af allsherjarnefnd sameiginlega. Ég vil þakka nefndarmönnum í hv. allsherjarnefnd fyrir samstarfið um þetta mál. Það er rétt að geta þess að tildrög frumvarpsins eru þau að á yfirstandandi þingi fluttu nokkrir alþingismenn frumvarp til laga um hópmálsókn, þ.e. 393. mál á þskj. 701. Þannig vill til að sá sem hér stendur er fyrsti flutningsmaður að því máli. Við vorum nokkrir þingmenn, auk mín hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ólöf Nordal, Siv Friðleifsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ögmundur Jónasson, Magnús Orri Schram, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari, þingmenn úr öllum flokkum, sem lögðum fram frumvarp um breytingu á lögum um meðferð einkamála. Tilgangur þess frumvarps er að leiða í lög viðbætur við lög um meðferð einkamála, innleiða réttarúrræðið hópmálsókn í íslenskt réttarfar. Í úrræðinu sem hér um ræðir felst heimild til handa hópi aðila, bæði einstaklinga og lögaðila, til að höfða sameiginlega dómsmál til kröfu um bætur vegna tjóns eða lögbrota. Það er rétt að geta þess að nú þegar er í lögum um meðferð einkamála úrræði þar sem aðilar dómsmáls eru fleiri en einn. Má meðal annars nefna ákvæði 18. gr. laganna um meðferð einkamála, um samaðild, ákvæði um samlagsaðild, ákvæði um málsóknarumboð félaga og samtaka og um kröfusamlag.

Þrátt fyrir þessi úrræði hefur það verið mat flutningsmanna þess frumvarps, þ.e. 393. máls, að sérstakt úrræði um hópmálsókn sé nauðsynleg viðbót við íslenskt réttarfar. Þetta hefur heilmikið verið til umræðu í íslensku samfélagi í kjölfar efnahagshrunsins og hygg ég að flestir séu þeirrar skoðunar sem hafa tjáð sig um það mál að þetta sé nauðsynleg réttarbót.

Í umfjöllun um málið á vettvangi allsherjarnefndar komu fram allmargar athugasemdir við það frumvarp sem ég var hér að víkja að, bæði frá dómsmálaráðuneytinu og eins frá réttarfarsnefnd og ýmsum öðrum aðilum sem töldu að vinna þyrfti þetta mál betur en það var unnið þegar það kom upphaflega fyrir þingið. Dómsmálaráðherra óskaði eftir því við réttarfarsnefnd að hún gerði nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu eða semdi nýtt frumvarp sem næði þeim markmiðum sem upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir eða ætlaðist til að yrði náð. Það hefur réttarfarsnefnd gert og kynnti allsherjarnefnd og allsherjarnefnd hefur sem sagt fallist á að með því frumvarpi sé markmiðunum ágætlega náð með heldur einfaldari hætti en upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með því sé lagt til að hópmálsókn verði valinn sá búningur að stofnað verði málsóknarfélag í því skyni að reka dómsmál í einu lagi um hagsmuni þeirra sem eiga í hlut og vilja leita réttar síns með öðrum. Það félag yrði þá aðildarhæft í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, kæmi fram sem aðili máls vegna hagsmuna allra félagsmanna. Þetta fyrirkomulag verður til þess að tryggja að reglur um hópmálsókn samrýmist aðildarreglum laga um meðferð einkamála og reglum fullnusturéttarfars um hvernig leitað er fullnusturéttinda samkvæmt dómi.

Frumvarpið felur einnig í sér heimild fyrir fleiri til að sækja rétt sinn fyrir dómstólum sameiginlega með ákveðnu móti. Þannig á úrræðið eingöngu við um aðild til sóknar. Því verða ekki mynduð málsóknarfélög í því skyni að taka til varna í dómsmáli. Af reglum laga um málskot leiðir þó að málsóknarfélag getur verið til varnar fyrir Hæstarétti þegar sá sem sóttur hefur verið af málsóknarfélagi áfrýjar dómi eða kærir úrskurð héraðsdóms.

Í frumvarpinu felst sú grundvallarregla að um mál sem höfðað er og rekið af málsóknarfélagi gilda allar reglur réttarfarslaga að því marki sem ekki er beinlínis vikið frá þeim með reglum frumvarpsins. Frumvarpið nær til þeirra tilvika þar sem hver og einn sem telur til réttar á hendur öðrum hefði getið rekið mál fyrir dómi upp á sitt einsdæmi eða með því að standa ásamt fleirum að málsókn með samlagsaðild. Þess í stað er með frumvarpinu lögð til heimild til stofnunar málsóknarfélags í því skyni að félagið komi fram og reki dómsmál en ekki þeir sem eiga þá hagsmuni sem leitað er fyrir dómi. Í frumvarpinu er gengið út frá því að þessi málsóknarfélög verði tiltölulega einföld í sniðum en þó verður að gæta þeirrar formfestu sem er nauðsynleg til að félag geti notið aðildarhæfis samkvæmt lögum um meðferð einkamála og farið með hagsmuni annarra fyrir dómi með því móti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þannig eru kröfur um það að félagi sem er stofnað í þessu skyni beri að halda félagatal, enda telst félagið sjálfkrafa koma fram og reka málið um hagsmuni skráðra félaga. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir formsatriðum að því þó gættu að málsóknarfélag verður að hafa samþykktir með reglum sem félagið starfar eftir. Til einföldunar er lagt til að dómsmálaráðherra setji reglugerð sem hafi að geyma almennar samþykktir fyrir málsóknarfélög og gildi þær nema félagsmenn ákveði að víkja frá þeim eða setja sérstakar samþykktir fyrir félagið.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að á eftir 19. gr. núgildandi laga komi ný grein sem verði 19. gr. a og verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, er í stað þess að sækja mál skv. 1. mgr. 19. gr. heimilt að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra. Málsóknarfélag skal stofnað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og er hvorki heimilt að takmarka ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum félagsins né láta það starfa við annað en rekstur málsins og eftir atvikum fullnustu á réttindum félagsmanna og uppgjör krafna þeirra. Séu málsóknarfélagi ekki settar sérstakar samþykktir skulu gilda um það almennar samþykktir sem dómsmálaráðherra ákveður í reglugerð. Halda skal skrá um félagsmenn. Verði málsóknarfélag skrásett skal ekki greitt fyrir það gjald í ríkissjóð.“ — Þetta segir hér í 1. tölulið.

Í 2. tölulið kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Þótt málsóknarfélag eigi aðild að máli eiga félagsmenn hver fyrir sitt leyti þá hagsmuni sem málið varðar og njóta þar sömu stöðu og aðilar að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessarar greinar. Í stefnu skal dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en greint skal allt að einu frá félagsmönnum, svo og hvern hlut hver þeirra eigi í kröfu sé hún um greiðslu peningafjárhæðar. Í dómi skal kveðið á um kröfu eða önnur réttindi félagsins á hendur gagnaðila án þess að félagsmanna sé getið. Félagið fer í hvívetna með forræði á máli svo að bindandi sé fyrir félagsmenn, þar á meðal til að fella það niður eða ljúka því með dómsátt. Ef því er að skipta leitar félagið í eigin nafni fullnustu réttinda félagsmanna að máli loknu. Leita má fullnustu á réttindum á hendur málsóknarfélagi hjá félagsmönnum sjálfum.“

Í 3. tölulið segir:

„Nú gengur nýr aðili í málsóknarfélag eftir að mál er höfðað en áður en aðalmeðferð þess er hafin og getur þá félagið aukið við dómkröfur sínar í þágu nýja félagsmannsins. Slík breyting á dómkröfum skal eftir þörfum gerð með framhaldsstefnu og gildir þá ekki það skilyrði 29. gr. að félaginu verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.“

Í 4. tölulið:

„Segi félagsmaður sig eftir höfðun máls úr málsóknarfélagi fer það ekki lengur með forræði á hagsmunum hans sem málið varðar og ber félaginu að breyta dómkröfum sínum að því leyti sem úrsögn gefur tilefni til. Dæma má félagsmann, sem svo er ástatt um, til að greiða hlut í málskostnaði sem gagnaðila félagsins kann að verða ákveðinn.“

Frumvarpið er ekki lengra en ég hef þegar lesið og er gert ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi. Þetta er einfaldari leið að mörgu leyti en sú leið sem farin var með frumvarpinu á þskj. 701, og er 393. mál, og ég hef áður vikið að. Að mínu mati nær það engu að síður þeim markmiðum sem þá voru sett fram og ég tel að í þessum lögum, verði þau samþykkt, sé mikilvæg réttarbót.

Gerð hefur verið grein fyrir því í umræðum um þetta mál að úrræði af þessum toga þekkist og hefur þekkst um alllangt skeið á öðrum Norðurlöndum, reyndar með nokkuð mismunandi hætti eða nokkuð mismunandi framkvæmd. Allt að einu er markmiðið það sama og meginhugsunin sem hér liggur á bak við, að gera einstaklingum og lögaðilum sem eiga sambærilegar kröfur, kröfur sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings eins og segir í frumvarpinu, kost á að höfða mál í einu lagi. Þetta tel ég að sé meginatriði þess frumvarps sem hér liggur fyrir og allsherjarnefnd hefur sameinast um að flytja. Ég vil enn á ný þakka samnefndarmönnum mínum í allsherjarnefnd fyrir að taka vel í flutning þessa máls.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu gangi málið til 2. umr., en það er ekki tillaga að það gangi til nefndar milli 1. og 2. umr., enda er nefndin öll einhuga um að flytja það.