138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[12:36]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Róbert Marshall og framsögumann nefndarálitsins, vegna þess hvernig málið var afgreitt í allsherjarnefnd, þ.e. það var ekki efnisleg umfjöllun um málið, það voru ekki fengnir gestir á fund nefndarinnar, hvort hann sé ekki sammála því að þegar 2. umr. er lokið verði málið tekið aftur inn til nefndarinnar og farið betur yfir það. Ég var að enda við að ræða við forsætisráðherra frammi. Hún þurfti að fara af vettvangi vegna mikilvægs máls en sagðist gjarnan vilja tala um það í 3. umr. þegar þar að kemur.

Í meðförum allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. væri alla vega hægt að leggja drög að því að efnt yrði til víðtækrar efnislegrar umræðu um málið og gera því frekari skil í öðru nefndaráliti. Það eru öfugmæli í því sem hv. þm. Róbert Marshall segir með endurflutning málsins á næsta ári. Hér verður hv. þingmaður náttúrlega að eiga við samvisku sína sem þingmaður, hann getur ekki mælt fyrir máli sem hann er ekki sammála. Það gengur ekki upp.

Mér er það þvert um geð að vera að skattyrðast við hv. þm. Róbert Marshall því að ég met störf hans mikils og ég met störf hans sem formanns allsherjarnefndar mikils. Hér er að mínu mati verið að etja honum á forað sem hann er ekki sáttur við og hann sem formaður allsherjarnefndar hlýtur einfaldlega að vilja fara betur yfir málið.

Eins og hann sagði áðan er rannsóknarskýrslan þýðingarmesta rit sem unnið hefur verið á Íslandi. Það er ekki skoðun þingmanna Hreyfingarinnar sem gerir það að verkum eingöngu að þeir gagnrýna þetta. Það stendur beinlínis í skýrslunni. Það er niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að fjármál stjórnmálaflokka eigi ekki að vera með þeim hætti sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Því langar mig einfaldlega að heyra líka hvort það þar að auki hvetji hann ekki til að vilja fara betur yfir málið.