138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[13:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að vekja máls á þessu og kalla eftir orkustefnu ríkisstjórnarinnar. Í fáum orðum sagt hefur ríkisstjórnin ekki stefnu í orkumálum því að hér takast á tveir viðkvæmir pólar, annars vegar iðnaðarráðuneytið og hins vegar umhverfisráðuneytið. Við höfum séð það á síðustu vikum hvernig þessi átök kristallast á milli þessara ráðuneyta. Á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar var svo sannarlega að stofna hér nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti en ríkisstjórnin hefur hvorki mátt né þor til að ganga í þær aðgerðir samhliða þeim breytingum á Stjórnarráðinu sem liggja fyrir og að ráðherrum hefur fækkað.

Það er alveg ljóst að þarna skarast miklir hagsmunir og á meðan þessi ráðuneyti sitja hvort með sinn ráðherrann hvorn í sínu húsinu í 101 Reykjavík verður ekki hægt að komast að neinni vitrænni niðurstöðu í þessu máli. Þessir hagsmunir skarast svo mikið enda var einkennilegt að sjá iðnaðarráðherra sem á að sjá um iðnaðaruppbyggingu í landinu fagna jafnmikið og hæstv. umhverfisráðherra þegar t.d. Norðlingaölduveita var tekin út af virkjanaskrá og sett í friðlýsingarferli, kippt út úr rammaáætlun. Þessir tveir (Gripið fram í.) sömu ráðherrar fögnuðu jafnmikið þegar til stóð að setja af stað framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Það er einkennilegt að horfa upp á þetta því að umhverfisráðherra á fyrst og fremst að gæta að umhverfinu.

Hæstv. iðnaðarráðherra lætur eins og Búðarhálsvirkjun sé komin í framkvæmd og því langar mig að vísa (Gripið fram í.) í frétt sem birtist á fréttavef RÚV þann 26. ágúst. Þar er haft eftir forstjóra Landsvirkjunar, með leyfi forseta, „að ef allt gangi að óskum um fjármögnun og verksamninga (Forseti hringir.) sé hægt að byrja á Búðarhálsvirkjun í nóvember“.

Frú forseti. Iðnaðarráðherra er (Forseti hringir.) hreinlega að blekkja þjóðina og þingið með því að tala um að hér sé allt á (Forseti hringir.) fullri ferð í þessum málum.