138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[13:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér fer fram umræða utan dagskrár um það sem kallað er stefna í uppbyggingu í orkumálum. Því miður hefur ekki farið mikið fyrir því hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar og málshefjanda að almennt sé rætt um stefnu í orkumálum. Áherslan hefur fyrst og fremst verið á eina tegund, þ.e. stóriðjuna, og það eru gamalkunnir tónar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn slá í þessari umræðu. Það er eins og að þeir hafi ekkert lært af hruninu og því hvernig stefnan í efnahagsmálum, atvinnumálum og orkumálum sigldi okkur í strand.

Varaformaður Framsóknarflokksins sagði: Öfgarnar einar ráða í málflutningi þingmanna Vinstri grænna og stefnu þess flokks.

Öfgarnar eru Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vegna þess að þeir sjá bara eina lausn í orkumálum. Það er mikilvægt fyrir okkur að horfa á orkumálin út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar. Umhverfismálin eru stærsta og mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna um allan heim nú og næstu ár og áratugi. (BJJ: Rétt.) Það á að taka á orkustefnunni. Hún á að byggja á samfélagslegum gildum. Við Íslendingar höfum fullt af möguleikum, við þurfum að sjálfsögðu að nýta þá orku sem við eigum til góðra hluta og orkustefnan á að miða að því að endurnýjanleg orka leysi af hólmi innflutt eldsneyti.

Íslendingar eru í öfundsverðri stöðu í þessu efni í heiminum og allir útlendingar sem við eigum samtöl við um þessi mál, sem koma hingað í heimsókn og kynna sér málin, öfunda okkur Íslendinga af stöðu okkar. Það er hægt að ná stórum áföngum í þessum efnum án þess að endilega þurfi að koma til nýjar virkjanir með tilheyrandi náttúrufórnum. Það á að gæta varúðar- og verndarsjónarmiða vegna þess að það er líka nýting í sjálfu sér að vernda auðlindina. Þetta eru þær áherslur sem ríkisstjórn (Forseti hringir.) Samfylkingar og Vinstri hreyfingar – græns framboðs — ég vek athygli á því að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er hér við völd — (Forseti hringir.) ætlar sér að hafa sem meginstefnu í orkumálum til framtíðar.