138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[14:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Auðvitað er hér ekki allt í himnalagi. (Gripið fram í: Nei?) Stjórnarstefnan í landinu síðustu áratugina keyrði hér allt í kaf (Gripið fram í.) þannig að hér er auðvitað ekki allt í himnalagi. Hv. þingmaður skal ekki leggja mér þau orð í munn að ég haldi að svo sé og að ég lifi í einhverri veröld sem snertir ekki við raunveruleikanum.

Það er þess vegna sem þessi ríkisstjórn hefur verið af fullu afli að reyna að skapa hér varanleg störf á breiðum grunni. Það er þess vegna (Gripið fram í.) sem við höfum ráðist í að setja hér rammalöggjöf utan um ívilnanir vegna nýfjárfestinga til að koma okkur út úr einstaka fjárfestingarsamningum. Það er þess vegna sem þessi ríkisstjórn hefur farið út í skattaívilnanir til handa sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í nýsköpun sem stunda rannsóknir og þróun innan þeirra. Það er þess vegna sem þessi ríkisstjórn hefur ráðist í skattaívilnanir (Gripið fram í.) til að koma af stað endurbótum á húsnæði. (Gripið fram í: Stjórnar…) Það er þess vegna sem þessi ríkisstjórn hefur lagt sig alla fram um að ná góðum tengslum við umheiminn (Gripið fram í.) og ríki í kringum okkur. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er enn þá í því að reyna að breiða yfir stuðning sinn við þá stjórnarstefnu sem keyrði hér allt í kaf með því að benda á þessa ríkisstjórn og einstök verkefni sem hafa ekki gengið eins vel og (Gripið fram í.) menn hafa viljað.

Virðulegi forseti. Fólki líður greinilega afar illa hér undir þessari tölu en (Gripið fram í: Þú ert ekki að tala …) þetta er staðreynd.

Virðulegi forseti. Fjármögnun orkufyrirtækja er m.a. erfið vegna þess að ekki hefur tekist að ljúka samningum um Icesave. Þetta hafa forustumenn fyrirtækjanna beinlínis sagt okkur. (Gripið fram í.) Og hverjir standa í vegi fyrir því að farsæl niðurstaða náist í það mál? (Gripið fram í: Hvað kemur …?) Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn? (Gripið fram í: Þetta er …) Hverjir tala hér fyrir því að draga til baka umsóknina að Evrópusambandinu og gera okkur að athlægi á alþjóðavettvangi? (Gripið fram í.) Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn? (Gripið fram í.)

Það er Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) sem hér þvælist fyrir í grundvallaratriðum í allri (Forseti hringir.) uppbyggingunni. En þessari ríkisstjórn er að takast (Forseti hringir.) með undraverðum hætti (Gripið fram í.) þrátt fyrir það (Forseti hringir.) að koma hér stórframkvæmdum af stað. (Forseti hringir.) Ég veit að mönnum þykir þetta miður en þetta eru samt staðreyndir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Háreysti í þingsal.]