138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:17]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall andsvarið. Varðandi lækkun nafnleyndargólfsins úr 300.000 í 200.000 kr. er það vissulega skref í rétta átt. Það eiga ekki að tíðkast nafnlaus fjárframlög til stjórnmálaflokka. Vissulega má kaffisjóðurinn, kannski upp að 20.000 kr., vera nafnlaus. En til hvers að hafa nafnlaus framlög til stjórnmálaflokka yfir höfuð? Það er algjör tímaskekkja og á ekki að líðast.

Varðandi það sem hann sagði um að ný framboð fengju fé er rétt að upplýsa hér að í vinnu þeirrar nefndar sem vann þetta frumvarp var ein af tillögum Hreyfingarinnar að stuðningur við ný framboð yrði aukinn. Þetta ákvæði var sett inn til að reyna að kaupa Hreyfinguna til fylgis við frumvarpið eins og það lagði sig. Þegar sú tillaga var komin inn treystu þeir sér einfaldlega ekki til að draga hana til baka þó að beitan virkaði ekki. Það er vegna þessa sem ákvæðið er þarna inni.

Framlög einstaklinga til stjórnmálaflokka eiga að sjálfsögðu að vera leyfileg en það er mjög flókið mál með hvaða hætti á að hátta þeim. Þau eiga ekki að vera nafnlaus. Það má að sjálfsögðu vera þak á þeim. Vissulega er ekki hægt að banna framlög einstaklinga til stjórnmálaflokka, ekki nema þá eftir mjög ítarlega umræðu. Ég hef sagt áður að fjármögnun stjórnmálahreyfinga um allan heim hefur farið í gegnum mjög erfitt tímabil. Það er mjög flókið mál að koma því í farveg sem allir yrðu sáttir við. Þetta er ekki einfalt mál, það er gríðarlega mikilvægt og flókið að koma þessu í réttan farveg. Þetta er ekki leiðin til að gera það, nánast umræðulaust og með hraði.

Traust almennings á Alþingi, eða vantraust, er mestmegnis vegna þess að hér hefur verið linnulítið samspil peninga og stjórnmálamanna undanfarin ár og áratugi. Því verður að breyta ef Alþingi á að geta starfað undir nafni.