138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:29]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er víða valið á lista stjórnmálaflokka með öðrum hætti en með prófkjöri. (Gripið fram í.) Það eru ekki allir sem hegða sér eins og Sjálfstæðisflokkurinn í því vegna þess að menn hafa einfaldlega óbeit á því að þeir einir sem komast fram séu þeir sem eru með mesta peninga milli handanna. Rannsóknir í t.d. Bandaríkjunum hafa sýnt að í 96% tilvika sigrar sá í prófkjöri sem hefur meiri peninga. Það er óæskilegt fyrirkomulag. Það er ekki til neitt einfalt svar við því, ég hef aldrei haldið því fram, en það er óæskilegt fyrirkomulag. Þetta með ungu og upprennandi konuna sem vill koma sér á framfæri — það er á valdi hvers og eins stjórnmálaflokks hvernig hann kýs að fólk komi sér á framfæri innan þess flokks. Sumir eru með forval, aðrir eru með prófkjör.

Hreyfingin var ekki með prófkjör og var ekki með forval. Við röðuðum fólki á lista (PHB: Ólýðræðislega?) nei, nei — fólk raðaði sér bara þar á lista sem það taldi sig eiga heima. Ef það voru fleiri en einn um eitthvert sæti ræddu menn um það og komust að niðurstöðu um hvor væri hæfari í sætið. Ef menn komust ekki að niðurstöðu var varpað hlutkesti. Hreyfingin starfaði einfaldlega þannig (Gripið fram í.) að það þurfti aldrei að varpa hlutkesti. (Gripið fram í.) Öllum landsmönnum var boðið að taka þátt í að vera á lista Borgarahreyfingarinnar. Þannig var það. Það er algjört einsdæmi. Það er ný aðferð. Ég er ekki viss um að hún mundi endilega virka aftur. Það eru dæmi um aðrar aðferðir en peningaaustur Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum. Þær eru lýðræðislegri en að sá ríki hafi sigur.