138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp sem er afskaplega merkilegt og þarfnast mikillar og málefnalegrar umræðu. Umræðan í fjölmiðlum hefur verið töluvert mikið á einn veg, þ.e. að grafa upp og gera allt tortryggilegt en ekki að benda á lausnir, hvernig menn vilja hafa þetta. Það er bara sagt: Þetta má ekki vera svona og má ekki vera svona. En ekki talað um hvernig hægt er að laga það.

Innan stjórnmálaflokkanna hafa ýmsar aðferðir verið notaðar við að velja menn á lista. Í mínum flokki t.d. hafa menn valið nokkrar leiðir, t.d. kjörnefnd, en þá fá þess vegna einhverjir tíu manns það valdamikla hlutverk að pikka menn á lista. Þeir reyna þá að hafa listann þannig að hann sé vænlegur til árangurs í kosningum. En auðvitað er þetta ekkert sérstaklega lýðræðislegt, langt í frá.

Svo hafa menn líka notað prófkjör og það eru stór prófkjör þar sem allir stuðningsmenn flokksins mega kjósa. Það eru 20 þúsund manns í tveimur kjördæmum hér í Reykjavík. Þar þurfa frambjóðendur að ná til 20 þúsund manns og það er ekkert auðvelt og getur ekki kostað lítið.

Svo eru aðrir flokkar með einhvers konar val í þrengri hópi. Vinstri grænir eru með að ég held 400 manna hóp eða eitthvað svoleiðis — ég verð þá leiðréttur ef það er rangt — sem velur og þá er nóg að taka upp símann og hringja í 200, þá er maður búinn að ná í helminginn og það dugar kannski. (Gripið fram í: Það er ekki nóg að hringja, þeir verða að kjósa þig.) Að fá þá til að kjósa af því að maður er svo ógurlega frambærilegur. (Gripið fram í.) Ég mundi telja að þetta sé frekar ólýðræðislegt og eiginlega bara mjög ólýðræðislegt.

Svo eins og Hreyfingin, þar var í herbergjum — ég segi nú ekki reykfylltum, ég veit það ekki — ákveðinn listi, bara sisvona. (ÞSa: Það er ekki rétt.) Öllum landsmönnum reyndar boðið en ég vissi ekki af því að ég væri boðinn þangað þannig að það skorti kannski upplýsingar og kostnað við að koma upplýsingunum til mín, sem sýnir vandamálið.

Það er greinilegt að kostnaður við prófkjör hefur farið úr böndunum sem og kostnaður við kosningar, ég er alveg sammála því. Ég er alveg sammála því að það er erfitt fyrir frambjóðanda með lítið fé, segjum 2, 3 milljónir, að keppa við frambjóðanda sem er með 20 milljónir, það er ekki sérstaklega jöfn staða. Og það er ekki spurning um að það geta verið í þessu miklir hagsmunir. Þó að fyrirtæki hafi ekki sjálf skoðun á hlutunum hafa þau hagsmuna að gæta og forstöðumenn fyrirtækja og stjórnir vita nákvæmlega hverjir hagsmunirnir eru. Þetta er því mjög vandmeðfarið og mér finnst það dálítið slæmt þegar menn ganga hér um með sleggjudóma um að þetta sé slæmt o.s.frv. en ræða ekki málin, sem sagt hver vandinn er.

Menn hafa farið ýmsar leiðir í kringum þetta, segjum t.d. að það sé bannað að taka við styrkjum frá fyrirtækjum og svo er stofnað félag um sögu Hreyfingarinnar og um þátt Þórs Saaris í þeirri merkilegu sögu. Þetta félag stundar rannsóknir á sögu Hreyfingarinnar frá upphafi og alveg sérstaklega á þætti hv. þm. Þórs Saaris í þeirri sögu. Rétt fyrir kosningar er gefin út bók og birtar auglýsingar um þá bók o.s.frv. og myndband sem birtist í sjónvarpinu þar sem rætt er um þann merkilega þátt Þórs Saaris í því að byggja upp Hreyfinguna.

Hvað ætla menn að gera við þetta? Er þetta kosningabarátta eða er þetta prófkjör eða hvað er þetta? Hvernig ætla menn að flokka þetta? Getur einhver bannað fólki að hafa þetta félag? Þetta sýnir vandann. Þetta var gert í Þýskalandi þar sem voru sett boð og bönn um styrki til stjórnmálaflokka.

Framlög frá fyrirtækjum verði bönnuð, sagði hv. þm. Þór Saari, sem hélt ágæta ræðu. Hvað gera menn? Fyrirtæki, segjum bílaverkstæði sem einhver náungi skuldar 500 þúsund. Og forstjórinn, sem má ekki veita styrki, hringir í náungann og segir: Heyrðu ef þú styrkir Þór Saari um 300 þúsund — sem er heimilt — þá gef ég þér eftir skuldina. Fyrirtækið færir þetta til gjalda, það kemur ekki skattur þar, og vinurinn bara borgar 300 þúsund í styrk. Ég er sem sagt að benda á alls konar leiðir sem menn geta notað til að fara fram hjá þessu.

Ég vil taka það fram að þetta frumvarp er til bóta, mjög til bóta. Þarna eru mörk, 200 þúsund hvað einstaklinga varðar, en ef einhver vill borga 500 þúsundkall gerir hann það bara með því að láta einhvern vin sinn borga 100 þúsundkall og annan vin sinn 200 þúsundkall o.s.frv. Möguleikarnir til undanskota eru því nánast takmarkalausir og afskaplega erfitt að rekja þá, sem er kannski meira um vert.

Þá held ég að ég sé búinn að svara þessu með nafnlausu framlögin og allt það, hvernig menn geta farið fram hjá þessu öllu saman. Svo er það, eins og ég nefndi hér í andsvari, að í kosningaprófkjörinu mínu þá hélt ég erindi um alls konar mál og leigði til þess sal og borgaði kaffi og kleinur og svona dót og þetta kostaði. Ég hefði alveg eins getað fengið eitthvert fyrirtæki til að styrkja mig til að halda erindi um þessi merkilegu námsefni sem ég hélt þarna. Hvernig hefðu menn litið á það ef Kaupþing gamla hefði styrkt þetta fyrir sína menn, fyrir sína kúnna að mega sækja þetta erindi og þeir hefðu auglýst þetta og allt svoleiðis? Fínt, ég hefði getað sparað mér einhverja hundrað þúsundkalla. Þetta er því vandamál.

Svo eru það mennirnir sem hafa efni á því að fara á þing. Viljum við hafa það þannig? Og ég vil endilega spyrja þá sem eru að gagnrýna þetta allt saman í umræðunni: Vilja menn að á Alþingi sitji bara þeir sem hafa efni á að vera á þingi? Ég vil það ekki. Ég vil að fólk hafi jafna stöðu, þannig að þetta þarf að ræða líka. Mér finnst þetta mál ekki vera fullrætt.

Ég mundi vilja halda þeim takti sem er í þessu frumvarpi að einhverju leyti. Þó vil ég undanskilja þingmenn og ráðherra. Þingmenn og ráðherrar hafa þetta ræðupúlt hér til að ná beint inn í fjölmiðlana, þessu er útvarpað núna beint til fjölda fólks. Er þetta ekki forgangur umfram þá sem ekki eru á þingi og þurfa að berjast við þingmenn, hvað þá ráðherra sem ferðast um landið og byggja brýr og hafnir og allt svoleiðis eða opna menntasetur eða eitthvað svoleiðis á kostnað skattgreiðenda og fá atkvæði í staðinn? Ég tel að þingmenn og ráðherrar megi bara ekki stunda kosningabaráttu af því að þeir gera það hvort sem er hér með óbeinum hætti.

Ég held að þetta mál sé engan veginn útrætt en ég er hlynntur þeirri miklu umræðu sem á sér stað. Ég er hlynntur því gagnsæi sem menn eru að koma með þó að ég sjái á því alla þessa vankanta. Menn þurfa að vera opnir fyrir vanköntunum. Það er allt of mikið um það að Alþingi setji alls konar lög sem strax er farið fram hjá af því að þingmenn átta sig ekki á því hvaða vankantar eru á stefnunni.

Ég vil endilega að sem flestir Íslendingar sem hafa áhuga á og metnað til taki þátt í stjórnmálum og eigi möguleika á því, að þeim sé ekki haldið niðri með reglum frá okkur sem erum komin inn og sitjum á grænni grein, að við gerum ekki ómögulegt fyrir annað fólk að kynna sig og koma sér á framfæri, en þetta er ekki einfalt mál. Ég fagna þessari umræðu og vil gjarnan að hún verði málefnalegri, sérstaklega í fjölmiðlum og úti um allt þjóðfélagið, þannig að menn átti sig á því hvaða vanda er hér við að eiga en hann er umtalsverður. Við viljum nefnilega ekki að fyrirtæki geti keypt menn til þingstarfa og til að vinna — sem sagt þá að skulda eitthvað. Og ég vil ekki hafa það þannig að ung stúlka eða ungur drengur sem eru mjög metnaðargjörn og fær og menntuð og allt slíkt, hafi enga möguleika á að koma sér á framfæri.