138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður sem er það vel efnaður að hann getur sinnt því og engu öðru að skrifa greinar og kynna sjálfan sig og skoðanir sínar er náttúrlega í allt annarri stöðu en fátæk verkakona eða ungur verkfræðingur sem þarf að vinna myrkranna á milli til þess að borga námslánin. Það er því ekki búið að leysa vandamálið með efnamanninn sem vill komast til valda hjá Vinstri grænum. Fyrir utan það að verkalýðsforingjar og aðrir sem eru þekktir úr fjölmiðlum vegna starfs síns eða þeir sem hafa verið lengi á þingi hafa náttúrlega forskot umfram aðra.

Það er því ekkert búið að leysa þetta. Mér sýnist flokksstarfið ekki það fjölmennt að menn þurfi Háskólabíó í hvert skipti, en kannski eru kjósendurnir og þeir sem eru flokksbundnir þar. Menn ná bara ekki til þessa stóra, breiða massa með flokksstarfinu einu sér en auðvitað má ná ansi langt með því. Ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn hélt góða, fjölmenna og stóra fundi í vetur um ýmis mál eins og Evrópusambandið og endurreisnina sem náði til breiðs hóps. Þannig geta menn kynnt skoðanir sínar.

Við sitjum eftir sem áður með vandann sem við þurfum að átta okkur á hver er og reyna að finna á honum skynsamlega og sanngjarna lausn.