138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:10]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal um margt ágæta ræðu. Hann veltir upp því sama og aðrir, þetta er ekki eins einfalt mál og frumvarpið vill vera láta. Í einu orði leggur þingmaðurinn lýðræðið að jöfnu við peninga. Honum finnst að menn eigi að fá að eyða peningunum eins og þeim sýnist. Í hinu orðinu kemur berlega í ljós þversögnin, það er þá ekki mikið lýðræði ef peningarnir fá að ráða. Þetta er einmitt vandamálið sem ég tel að þurfi að koma í veg fyrir.

Hvað varðar umræðu hans um að eitthvert fólk úti í bæ stofni félag um mig til þess að ég geti náð kjöri, þá tæki ég hvorki þátt í því né færi í svoleiðis framboð. Ég tek ekki þátt í svoleiðis stjórnmálum, hv. þm. Pétur Blöndal.

Jöfn staða manna er mikilvæg. Það er ekki spurning hvort fólk sé þekkt eða ríkt til þess að geta tekið þátt í stjórnmálum, það er ekki þannig. Það verður að horfa á málin öðruvísi en einungis innan úr prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki æskileg aðferð að mínu mati, en sannarlega ein aðferð.

Hv. þingmaður talar einnig um að þingmenn hafi forskot á aðra. Það er vissulega rétt. Ég leyfi mér að benda á að á nýliðnu vorþingi var kjördæmavika rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar. Hún hét að vísu ekki kjördæmavika en þingmenn notuðu vikuna til þess að endasendast um kjördæmi sitt til að berjast fyrir sinn flokk og sína frambjóðendur á fullum launum frá þinginu, frá almenningi. Margir þeirra skiluðu inn reikningum upp á hundruð þúsunda króna í aksturskostnað til þingsins. Þetta er hvorki rétt meðferð á almannafé né rétt lýðræði. Er hv. þingmaður þá á móti því? Ég spyr um það.