138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[16:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hélt ekki lengi þetta faðmlag sem hér var á milli stjórnar og stjórnarandstöðu (BJJ: Jú, jú.) og fögur fyrirheit um að nú skyldu menn fara að starfa saman á breiðum vettvangi. Ekki var fyrr búið að sleppa því orði en menn voru farnir að rífast hér um rammaáætlun og framkomu ráðherra í þeim efnum. (Gripið fram í: Nei.) Það skil ég mjög vel.

Ég ætla að leyfa mér að vera raunsærri í mati á þessu, virðulegi forseti, en þeir sem töluðu hér á undan mér. Miðað við vinnubrögðin hjá hæstv. ríkisstjórn sé ég ekki von til þess að of mikil sátt verði um grundvallaratriði. Við getum verið sátt um ágæt mál eins og hér er verið að ræða og fara í gegnum sem hafa kannski ekki neina veigamikla þýðingu almennt séð í þeim vandamálum sem að þjóðfélaginu steðja, en þegar kemur að stóru málunum er augljóslega mikill ágreiningur. Hann er ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu, hann er greinilega mikill innan ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir þær breytingar sem þar hafa verið gerðar.

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er í sjálfu sér mjög tímabær áminning um það hversu viðkvæm náttúra okkar er. Við þurfum að horfa til þess hvernig við getum í framtíðinni höndlað þá góðu og ánægjulega þróun sem verið hefur í ferðamennskunni. Ekki er hægt að reikna með öðru en að þessi aukning haldi áfram. Sem betur fer stækkar sá hópur sem hefur áhuga á að heimsækja landið okkar og njóta þeirrar víðfeðmu og fallegu náttúru sem það hefur upp á að bjóða. Hálendið er stór hluti af því dæmi. Við höfum horft upp á mikla aukningu í ferðamennsku um hálendi Íslands, bæði í skipulögðum ferðum af hálfu ferðaþjónustuaðila, og þá í mjög fjölbreyttu formi, og ekki síður hjá einstaklingum sem taka sér þessar ferðir á hendur, leigja sér bíla eða fara gangandi um víðáttur hálendisins.

Við höfum fengið leiðinlegar fréttir af því í fjölmiðlum á undanförnum árum — skemmst er að minnast fréttar frá því í fyrrasumar — hve óþrifnaður er orðinn mikill á ákveðnum stöðum. Fólk gat illa þrifist á svæðum þar sem menn höfðu hreinlega þurft að ganga örna sinna í víðáttunni. Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Við getum ekki látið slíkt þróast áfram. Við verðum að grípa inn í og jafnvel fyrr en þessi áætlun kveður á um.

Það er annað mál sem tengist þessu. Mig langar aðeins að minnast á það í þessu sambandi, en það snertir öryggismál ferðamanna á hálendinu. Ég hef starfað lengi í björgunarsveitum landsins. Á árum áður fóru björgunarsveitarmenn gjarnan í frí á vorin og komu aftur til starfa á haustin, það hafði lítið verið að gerast yfir sumarið. Nú er sumarið einn annasamasti tími björgunarsveitanna og sérstaklega eru það verkefni á hálendinu og reyndar verkefni til sjávar líka sem eru þar fyrirferðarmest. Ég held að það hafi verið árið 2006 sem Slysavarnafélagið Landsbjörg hafði frumkvæði að því að koma fyrir með skipulögðum hætti björgunarsveitum á hálendinu alla daga ársins í einar sjö vikur yfir sumarið. Þær sveitir hafa verið staddar á Kili og Sprengisandi og að Fjallabaki og reyndar víðar. Þetta eru fjórar sveitir sem eru stöðugt á hverju svæði allt sumarið. Björgunarsveitir landsins og sjálfboðaliðar skipta þessari vinnu á milli sín. Það er að mörgu leyti mjög eftirsóknarvert fyrir björgunarsveitirnar að gera þetta. Það fæst út úr þessu mikil þjálfun og reynsla fyrir fólkið og klárlega var mikil þörf, vegna þess að það hefur verið gríðarlega mikið að gera hjá þessum sveitum. Oft eru þessar sveitir fyrstar á slysstað þegar eitthvað er að gerast og svo eru þær að greiða leið og leiðbeina fólki og hjálpa því í smáum sem stórum vandræðum sem verða. Þetta sýnir okkur best að þegar við horfum til skipulag ferðamennsku á hálendinu þurfum við einnig að horfa sérstaklega til þessara þátta, þ.e. öryggis þess fólks sem heimsækir okkur og taka það inn í skipulagsvinnu okkar hvað varðar ferðamennsku á hálendinu.

Hálendið er viðkvæmt. Svo er einnig um marga af okkar þekktustu ferðamannastöðum. Það er þekkt vandamál jafnvel á þekktum ferðamannastöðum í byggð. Ég vil nefna staði eins og Dimmuborgir og Geysi í Haukadal þar sem aðstaða fyrir ferðafólk er að mörgu leyti alls ekki nægilega góð. Það getur átt við um hreinlætisaðstöðu, göngustíga og merkingar og ekki síður öryggismál eins og í kringum háhitasvæðin eða hverasvæðin okkar. Þá er það spurning hvernig við eigum að greiða fyrir þann óumflýjanlega kostnað sem af þessu hlýst.

Mér er minnisstæð ferð sem landbúnaðarnefnd þingsins fór um Norðurland fyrir kannski tveimur árum þar sem við vorum að heimsækja bændur og afurðastöðvar, sláturhús. Við komum m.a. við í Dimmuborgum. Þar fórum við yfir aðstöðuna með starfsfólki á staðnum. Þennan stað heimsækja gífurlega margir, sennilega um 200 þúsund manns á ári. Mörg skemmtiferðaskip koma á Eyjafjarðarsvæðið og víðar og þaðan er ferðamönnum ekið yfir á svæðið í rútum. Aðstaðan var þannig að stórar rútur áttu í erfiðleikum með að snúa á planinu sem var til staðar og hreinlætisaðstaða var mjög ófullnægjandi til að taka á móti svona fjölmennum hópum. Engin aðstaða var til þess að fólk gæti verið í húsi eða fengið sér hressingu eða eitthvað slíkt. Starfsfólkið var að biðja um mjög lága upphæð, var að biðja okkur að hlutast til um framlag úr ríkissjóði til að koma upp lágmarksaðstöðu. Ég sló því saman þarna í ferðinni hvað við þyrftum í raun að láta hvern ferðamann greiða litla upphæð til þess að sú upphæð sem svona staður hefði á milli handanna yrði bara ansi myndarleg, gæti staðið undir öllu því sem starfsfólkið var að óska eftir og miklu meira en það. Um leið yrði sú upphæð atvinnuskapandi. Þarna væri hægt að koma upp þjónustumiðstöð og þetta væri orðið miklu sjálfbærara dæmi, auk þess sem þetta mundi standa undir því að efla alla þjónustu við ferðamenn hvað varðar merkingar, göngustíga o.s.frv.

Ég held að við verðum að horfa til þess að fara þessa leið. Hugmyndir hafa verið uppi um að leggja nefskatt á alla ferðamenn sem koma til landsins. Ég er miklu hlynntari því að við látum hvern og einn stað rukka fyrir sig. Það er ákveðinn hvati í því og það yrði með því skilyrði að a.m.k. góður hluti upphæðarinnar yrði eftir til að standa undir endurbótum á viðkomandi stað, en eitthvað gæti runnið í sameiginlegan sjóð til að taka á vanda á þeim stöðum þar sem erfiðara er að koma gjaldtöku við.

Við upplifðum við Geysi í Haukadal í sumar hörmulegt slys á ungu barni. Það slys og umfjöllun um það rataði í fjölmiðla. Þau eru fjölmörg önnur sem ekki rata í fjölmiðla sem gerast víðast hvar um landið, á hálendinu og í byggð, og eiga rætur sínar að rekja til þess að merkingar og öryggiskröfur eru ófullnægjandi.

Ég vildi hafa þetta sem innlegg í málið. Þetta er gott mál. Við sjálfstæðismenn styðjum það. Það var góður hugur í nefndinni og góð samstaða, eitthvað sem mætti vera oftar á okkar vettvangi. Ég deili ekki bjartsýni manna sem töluðu á undan mér um að svo verði í þeim stóru ágreiningsefnum sem fram undan eru. Í því mikilvæga og góða máli sem rammaáætlun er sjáum við að umhverfisráðherra er búinn að gefa upp boltann og þar er augljós ágreiningur í uppsiglingu.