138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

framkvæmdir í vegamálum.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að eiga orðastað við nýjan dóms- og samgönguráðherra og inna hann eftir sjónarmiðum sem snúa að framkvæmdum í vegamálum. Forveri hans í starfi vann að því sem samgönguráðherra að undirbúa ýmsar vegaframkvæmdir sem eftir atvikum yrðu síðan fjármagnaðar með framlagi frá lífeyrissjóðunum. Á sumarþinginu voru afgreidd lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir sem heimiluðu ráðherranum að koma á fót slíku félagi utan um einstakar vegaframkvæmdir sem menn hafa lagt drög að því að framkvæma, en fyrir liggur að ríkissjóður er ekki nægilega sterkur til að annast um þær einn. Af þeirri ástæðu hafa menn horft til þess að fá lífeyrissjóðina með sér í þann leiðangur til að fjármagna slíkar stórframkvæmdir.

Fráfarandi samgönguráðherra hefur sagt að komi ekki til framkvæmda af þessum toga í samstarfi við lífeyrissjóðina sé þess að vænta að mest lítið verði að gera í vegaframkvæmdum á landinu á komandi missirum. Mig langar þess vegna að inna nýviðtekinn samgönguráðherra eftir þessum efnum, hvernig hann sjái fyrir sér að fylgja eftir þeim áformum sem unnið hefur verið að í því ráðuneyti sem hann hefur nú tekið við. Hæstv. ráðherra studdi ekki lögin um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir á sumarþinginu heldur sat hjá við þá atkvæðagreiðslu. Þess vegna finnst mér mikilvægt að fá á hreint hvort hæstv. ráðherra ætlar að fylgja þessum áformum eftir. Við skulum þá hafa í huga (Forseti hringir.) að þessir hlutir voru meðal þess sem var á sínum tíma í stöðugleikasáttmálanum, þ.e. að ríkisstjórnin mundi vinna þessum málum framgang.